Viðskipti innlent

Hagnaður Arion banka dróst saman um fjóra milljarða á milli ára

Kjartan Kjartansson skrifar
Arion banki var skráður á markað á öðrum ársfjórðungi ársins.
Arion banki var skráður á markað á öðrum ársfjórðungi ársins. Vísir/Eyþór
Samstæða Arion banka hagnaðist um 3,1 milljarð króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Það er fjórum milljörðum króna minna en á sama tímabili í fyrra. Heildareignir bankans nema nú hátt í 1.200 milljörðum króna.

Í tilkynningu frá Arion banka kemur fram að arðsemi eigin fjár bankans hafi verið 5,9% á öðrum ársfjórðungi en hún var 13% á sama tímabili árið 2017. Hagnaður samstæðunnar á fyrri helmingi ársins hafi numið fimm milljörðum króna og arðsemin 4,7% borið saman við 10,5 milljarða króna hagnað og 9,7% arðsemi á sama tímabili í fyrra.

Heildareignir bankans námu 1.174,8 milljörðum króna í lok júní 2018 samanborið við 1.147,8 milljarða króna í árslok 2017 og eigið fé hluthafa bankans nam 206,9 milljörðum króna, samanborið við 225,6 milljarða króna í árslok 2017.

Eiginfjárhlutfall bankans var 21,9% í lok júní en var 24,0% í árslok 2017. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 nam 21,8%, samanborið við 23.6% í árslok 2017.

Arion banki var skráður á aðalmarkaði Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm þann 15. júní sl., í kjölfar almenns útboðs, þar sem 28,7% hlutur var seldur. Fjárfestar frá Íslandi, Skandinavíu, Bretlandi, Evrópu og Bandaríkjunum tóku þátt í útboðinu. Þetta var fyrsta skráning íslensks banka á aðalmarkað á Íslandi síðan 2008.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×