Körfubolti

LA Lakers staðfestir komu LeBron James

Arnar Geir Halldórsson skrifar
LeBron hefur kvatt Cleveland
LeBron hefur kvatt Cleveland vísir/getty
LeBron James er búinn að krota undir samning sinn við Los Angeles Lakers en endanlega var gengið frá samningamálum í nótt þó nokkrir dagar séu síðan ljóst var að LeBron væri á leið til Lakers.

Ekki er greint frá skilmálum samningsins en samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs er samningurinn til fjögurra ára.

„Þetta er frábær dagur fyrir félagið og stuðningsmenn Lakers um allan heim bjóða velkominn LeBron James, þrefaldan NBA meistara og fjórfaldan MVP,“ sagði forseti Lakers, sjálfur Magic Johnson.

„LeBron er sérstakur. Hann er besti leikmaður heims. Hann elskar að keppa og er stórkostlegur leiðtogi sem hugsar bara um að vinna og hjálpar liðsfélögum sínum að ná árangri. Leikmenn Lakers eru spenntir að fá samherja sem hefur farið níu sinnum í úrslitaeinvígi. Þetta er stórt skref fyrir Lakers í áttina að úrslitakeppni og því að komast í úrslitaeinvígið,“ sagði Magic.

Mun leika í treyju númer 23LeBron James kemur til með að leika í treyju númer 23 hjá LA Lakers, líkt og hann gerði hjá Cleveland Cavaliers en þegar LeBron spilaði fyrir Miami Heat lék hann í treyju númer 6.

James spilaði alla 82 leiki deildarinnar á síðustu leiktíð og var þriðji stigahæsti leikmaður deildarinnar með 27,5 stig að meðaltali í leik auk þess að vera næst stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar með 9,1 stoðsendingu að meðaltali í leik.

LA Lakers hefur einnig sótt þá Lance Stephenson, JaVale McGee og Rajon Rondo í sumar en þeir voru allir samningslausir. Þá mun Kentavious Caldwell-Pope verða áfram í herbúðum Lakers.

NBA

Tengdar fréttir

Taka niður risastóru myndina af LeBron James í miðbæ Cleveland

LeBron James hefur yfirgefið lið Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni í körfubolta og samið við lið Los Angeles Lakers. Við þesssa ákvörðun James verður ekki bara breyting á Cavaliers liðinu heldur einnig mikil breyting á miðbæ Cleveland borgar.

LeBron James í LA Lakers

Skærasta stjarna NBA deildarinnar hefur samþykkt fjögurra ára samning við Los Angeles Lakers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×