Viðskipti innlent

Eigið fé Kristins er 21,5 milljarðar króna

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Guðbjörg M. Matthíasdóttir á ársfundi LÍÚ á sínum tíma.
Guðbjörg M. Matthíasdóttir á ársfundi LÍÚ á sínum tíma. VISIR/ANTON
Hagnaður fjárfestingarfélagsins Kristins, sem er í eigu Guðbjargar Matthías­dóttur og fjölskyldu, jókst um 18 prósent á milli ára og var 749 milljónir króna í fyrra. Einkum er um að ræða vaxtatekjur og verðbreytingu markaðsverðbréfa. Eigið fé var 21,5 milljarðar króna við árslok og arðsemi eiginfjár var fjögur prósent í fyrra. Kristinn skuldar lítið, rúmlega 400 milljónir króna, einkum hluthöfum. Félagið mun ekki greiða arð í ár.

Kristinn á óskráð hlutabréf sem metin voru á um tíu milljarða króna í bókum félagsins og verðbréf sem metin voru á 8,5 milljarða króna og jókst virði þeirra um 57 prósent á milli ára. Fjárfestingarfélagið á 1,3 milljarða á bankabók.

Bókfært virði fasteignafélagsins Korputorgs var 5,3 milljarðar króna og jókst um 970 milljónir króna á milli ára, virði prentsmiðjunnar Odda jókst um 104 milljónir króna á milli ára og var 414 milljónir og heildsalan Ísam var metin á 3,7 milljarða sem er 16 prósent lækkun á milli ára. Fram hefur komið í Markaðnum að Ísam hafi tapað 301 milljón króna í fyrra.

Erlend verðbréf félagsins voru metin á 3,7 milljarða króna og virði þeirra jókst um sjö prósent á milli ára. Virði annarra verðbréfa jókst um 2,6 milljarða króna og voru bréfin metin á 3,4 milljarða króna og ríkistryggð markaðsbréf voru bókfærð á 1,4 milljarða króna og jókst virði þeirra um 24 prósent á milli ára. Félagið á 1,3 milljarða á bankabók.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×