Viðskipti innlent

Tollastríð ESB og Bandaríkjanna mun ekki bitna á innflutningi til Íslands

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hershey's súkkulaðisíróp og hnetusmjör munu hækka í verði í ríkjum Evrópusambandsins vegna ákvörðunar um að setja tolla á vörur innfluttar frá Bandaríkjunum.
Hershey's súkkulaðisíróp og hnetusmjör munu hækka í verði í ríkjum Evrópusambandsins vegna ákvörðunar um að setja tolla á vörur innfluttar frá Bandaríkjunum. Vísir/EPA

Sú ákvörðun Evrópusambandsins að setja tolla á vörur frá Bandaríkjunum mun ekki hafa áhrif á verð á vörum sem fluttar eru frá Bandaríkjunum hingað til lands því Ísland stendur utan við tollabandalag Evrópusambandsins þótt það sé hluti af innri markaði sambandsins.

Tollar Evrópusambandsins á vörur innfluttar frá Bandaríkjunum voru innleiddir í dag. Tollarnir eru svar sambandsins við tollahækkunum Bandaríkjaforseta á evrópskar vörur sem tóku gildi fyrr á þessu ári. Verðið á evrópsku stáli hækkaði þannig um 25 prósent í Bandaríkjunum og verðið á áli um 10 prósent eftir tollahækkanirnar.

Frá og með deginum í dag hækkar verð á bandarískum vörum sem fluttar eru til Evrópu um 25 prósent. Þar má nefna bandarískt viskí, sígarettur, mótorhjól og appelsínusafa. Þá mun verð á vörum eins og skóm, fatnaði og þvottavélum hækka um 50 prósent. Tollahækkunin nemur alls um 2,8 milljörðum evra, jafnvirði 353 milljarða króna.

Ásta Sigríður Fjeldsted framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Vísir/Viðskiptaráð Íslands

Óvíst um óbein áhrif
Ísland stendur utan við tollabandalag Evrópusambandsins þótt það sé hluti af innri markaði þess í gegnum EES-samninginn. Þess vegna munu þessar hækkanir ekki bitna á innflutningi íslenskra fyrirtækja á vörum frá Bandaríkjunum.

Ásta Sigríður Fjeldsted framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs segir að þetta muni því ekki leiða til verðhækkana hér innanlands. 

„Ég sé ekki að svo stöddu að þetta muni hafa bein áhrif á verðhækkanir á þær vörur sem við flytjum beint inn frá Bandaríkjunum því eins og þú segir réttilega á þá erum við ekki hluti af Evrópusambandinu. Það er enn óljóst hvort einhver óbein áhrif muni hljótast af þessu í tengslum við viðskipti okkar við Evrópusambandið. Vissulega eru þetta neikvæðar fréttir fyrir þróun alþjóðaviðskipta að tollastríð sé í raun skollið á og við Ísland, sem lítið land, eigum mikið undir frjálsum alþjóðlegum viðskiptum í heiminum. Þetta sýnir kannski hversu mikilvægt er að leggja áherslu á fríverslunarsamnina,“ segir Ásta.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags Atvinnurekenda.

Tollar alltaf slæmir
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir að fljótt á litið sé ósennilegt að þetta hafi einhver bein áhrif á innflutning til Íslands.

„Það er auðvitað alltaf slæmt fyrir lítið opið hagkerfi eins og Ísland, sem á mjög mikið undir frjálsum milliríkjaviðskiptum, þegar svona tollaskærur eða tollastríð fara af stað. Það er á endanum vont fyrir alla, líka þá sem beita tollunum. En eins og þú segir þá stendur Ísland utan tollabandalagsins þannig að þetta á ekki að hafa nein áhrif á innflutning til Íslands. Það gætu auðvitað verið einhver dæmi um að vörur sem fluttar eru frá Bandaríkjunum gegnum Evrópusambandslönd gætu hækkað í verði ef þær eru tollaðar inn til Evrópusambandsins en ef þær eru aðeins með viðkomu í einhverjum höfnum ríkja Evrópusambandsins en eru ekki tollaðar þar þá ætti það ekki í rauninni að skipta máli. Við þurfum bara að fylgjast vel með þessu eins og öðru í þessum tollamálum og hafa augun á íslenskum hagsmunum,“ segir Ólafur. Hann segist ekki hafa fengið neinar upplýsingar um að þessi ákvörðun ESB skaði hagsmuni íslenskra fyrirtækja. Hins vegar séu stjórnendur sumra fyrirtækja að velta fyrir sér hvaða áhrif þetta muni hafa.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
KVIKA
0,78
4
241.107
HAGA
0,58
1
252
REITIR
0,33
4
31.487
ARION
0,25
3
15.919
REGINN
0,12
1
242

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
BRIM
-2,77
9
131.656
SKEL
-1,15
1
11.580
SYN
-0,94
4
25.388
FESTI
-0,59
1
25
VIS
-0,39
2
196
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.