Innlent

Hvolfdi bílnum á leið ofan í ána

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin sem Hannes tók og birti af bílnum í morgun er ansi mögnuð.
Myndin sem Hannes tók og birti af bílnum í morgun er ansi mögnuð. Hannes Lárus Hjálmarsson

Tveir erlendir ferðamenn sem voru á ferð um Möðrudalsleið, fjallveg 905, í gær hvolfdu bílnum sem þeir voru á þar sem þeir voru á leiðinni leið ofan í á.

Hannes Lárus Hjálmarsson, leiðsögumaður hjá GeoTravel í Mývatnssveit, kom að fólkinu um hálftíma eftir óhappið og birti mynd af bílnum á samfélagsmiðlum í morgun sem hefur vakið mikla athygli.

Í samtali við Vísi segir Hannes að hann hafi byrjað á að athuga hvort ferðafólkið væru eitthvað slasað eftir veltuna en þau voru sem betur fer stálslegin.

Þá voru þau búin að kalla á lögreglu en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi kom tilkynning um málið rúmlega sex í gærkvöldi.

„Ég held að hann hafi bara flippað bílnum“

Lögreglan vill ekki fara út í hvað gerðist nákvæmlega sem varð þess valdandi að bílnum hvolfdi en Hannes telur að ökumaðurinn hafi verið að keyra of hratt.

„Hann vildi ekki meina að hann hafi verið að keyra of hratt en þegar þú veltir bíl þá þarftu að keyra svolítið hratt, í flestum tilfellum allavega,“ segir Hannes.

Hann segir að áin sé í smá hvarfi frá veginum og að maður sjái hana ekki fyrr en maður komi að henni.

„Ég held að honum hafi aðeins fipast og misst stjórn á bílnum. Svo aðeins til vinstri þá er svona barð rétt áður en þú kemur að ánni. Ég sá dekkjarförin hans þar upp í þannig að ég held að hann hafi bara flippað bílnum.“

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi var bíllinn sóttur með aðstoð björgunarsveita og fluttur á Egilsstaði.

Færslu Hannesar sem hann setti á Facebook-síðu sína má sjá hér fyrir neðan.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.