Erlent

Indverskur auðkýfingur sækir um pólitískt hæli á Bretlandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Nirav Modi er sakaður um milljarðasvik í heimalandinu en segist sæta pólitískum ofsóknum.
Nirav Modi er sakaður um milljarðasvik í heimalandinu en segist sæta pólitískum ofsóknum. Vísir/Getty
Indverski auðkýfingurinn Nirav Modi hefur sótt um pólitískt hæli á Bretlandseyjum. Greint er frá þessu á vef Financial Times en milljarðamæringurinn indverski er til rannsóknar í heimalandi sínu þar sem hann er sakaður um fjársvik sem varða um tvo milljarða dala, eða því sem nemur um 211 milljörðum íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag.

Financial Times hefur þetta eftir embættismönnum bæði á Indlandi og Bretlandi.

Fjallað er um málið á vef fréttaveitu Reuters sem gerði tilraun til að ná tali af Nirav Modi án árangurs.

Forsvarsmenn ríkisbankans Punjab National Bank, sem er næst stærsti ríkisrekni banki Indlands, halda því fram að tvö skartgripaveldi, sem Modi og frændi hans Mehul Choksi leiða, hafa svikið um 2,2 milljarða dala úr bankanum. Eru þeir sagðir hafa gert það með því að hækka heimildir sínar með fölsuðum ábyrgðum sem lagðar voru fyrir starfsfólk útibúa Punjab National Bank á erlendri grundu.

Financial Times segir Nirav Modi í London þar sem hann hefur sótt um hæli en hann telur sig sæta pólitískum ofsóknum í heimalandi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×