Viðskipti innlent

Fasteignaskattar jukust um 6,1 milljarð

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Ísland var með hæstu fasteignagjöldin á Norðurlöndum árið 2016.
Ísland var með hæstu fasteignagjöldin á Norðurlöndum árið 2016. Vísir/VIlhelm

Ætla má að árlegar tekjur sveitarfélaga af fasteignaskatti hafi aukist um 6,1 milljarð króna á milli áranna 2013 og 2017. Aukninguna má nær alfarið rekja til hækkunar fasteignaverðs um land allt. Frá árinu 2014 hefur álagður fasteignaskattur hækkað um 17 prósent á hvern íbúa á föstu verðlagi. Þetta kemur fram í skoðun Viðskiptaráðs um sveitarfélög.

Ísland var með hæstu fasteignagjöldin á Norðurlöndum í hlutfalli við landsframleiðslu árið 2016 eða 1,5 prósent af landsframleiðslu. Til samanburðar var hlutfallið 1,4 prósent í Danmörku, 0,8 prósent í Svíþjóð og Finnlandi og 0,4 prósent í Noregi, að því er fram kemur í skoðuninni. „Einnig var vægi þeirra af heildarskattheimtu meira en gerist á öðrum Norðurlöndum. Að þessu leyti stendur Ísland því verr að vígi í alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki heldur en hin Norðurlöndin,“ segir í skoðun Viðskiptaráðs.

Viðskiptaráð segir að sterk rök hnígi að því að skilvirkara væri að afnema fasteignaskatta og láta gjaldtöku af lóðum koma í stað þeirra. Skattlagning lóða sé hagkvæmari leið til gjaldtöku og geti stuðlað að betri nýtingu landsvæðis en skattlagning bygginga og mannvirkja. „Þannig ýtir skattur á lóðir í stað bygginga undir þéttingu byggðar með því að gera útþenslu kostnaðarsamari en áður.“

Tekjur sveitarfélaga voru um 13 prósent af vergri landsframleiðslu í fyrra sem er hærra hlutfall en samanlagt framlag sjávarútvegs, stóriðju og veitna til landsframleiðslu. Tekjurnar samsvara 28 milljörðum króna á mánuði, samkvæmt skoðuninni. „Lækkun skatta og gjalda á íbúa er lítið uppi á pallborðinu þrátt fyrir að innheimta sveitarfélaganna hafi aldrei verið meiri,“ segir Viðskiptaráð. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.