Viðskipti innlent

Sigmar segir „samlokusalann“ Skúla hafa stundað „siðlausa viðskiptahætti“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigmar Vilhjálmsson og Skúli Gunnar Sigfússon á meðan allt lék í lyndi, á yfirborðinu hið minnsta.
Sigmar Vilhjálmsson og Skúli Gunnar Sigfússon á meðan allt lék í lyndi, á yfirborðinu hið minnsta. Vísir/Stefán
Athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson segir það mikinn létti að mæta Skúla Gunnari Sigfússyni loksins fyrir dómstólum. Aðalmeðferð í máli Sigmars gegn Skúla Gunnari, eða raunar Sigmars og félags að hluta í eigu þeirra beggja (Sjarmur og Garmur ehf), gegn félagi í meirihlutaeigu Skúla (Stemma ehf) fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Sjarmur og Garmur á 36% hlut í Stemmu.

Á meðan Sigmar hefur sérhæft sig í hamborgurum og pítsum undanfarin ár hefur Skúli hasslað sér völl sem eigandi Subway hér á landi og iðuleg kenndur við bandaríska samlokufyrirtækið. „Samlokusali“ eins og Sigmar nefnir Skúla í pistli á Facebook í kvöld. Þar deilir hann með fylgjendum sínum ástæðum þess að hann stendur í stappinu án þess að fara í saumana á því um hvað málið snýst.

„Á morgun mun ég mæta í Héraðsdóm Reykjavíkur eftir 3ja ára baráttu við samlokusala hér á landi. Þessi 3 ár hafa verið gríðarlega erfið og kostnaðarsöm. Ég hef valið að tjá mig aldrei um þessi deilumál opinberlega, þrátt fyrir mikinn áhuga blaðamanna á þessu máli. Ég hef litið á þetta mál sem mál sem á heima fyrir dómstólum og það er loksins komið þangað,“ segir Sigmar.

Það verði því mikill léttir að koma málinu loksins fyrir dómara sem muni meta málið út frá þeim gögnum sem liggi fyrir, 190 fylgiskjöl að sögn Sigmars.

Sigmar Vilhjálmsson er þekktur viðskiptamaður hér á landi. Hann seldi á dögunum hlut sinn í Keiluhöllinni og Hamborgarafabrikkunni.Vísir/anton brink

Láta vaða yfir sig eða standa í lappirnar

Sigmar og Skúli voru í samstarfi en eitthvað slettist upp á viðskiptin fyrir nokkrum árum. DV hefur heimildir fyrir því að deilan fyrir dómstólum snúi að ósætti varðandi lóðir á Hvolsvelli. Vísir mun fjalla nánar um deilurnar á morgun þegar aðalmeðferð í málinu fer fram.

„Þessi 3 ár sem deilur okkar hafa staðið yfir, þá hefur meðeigandi minn lagt á sig mikla vinnu og fjármuni við að draga úr mér kjarkinn, tennurnar og fjármuni.

Ég mun líklega aldrei fá til baka þá fjármuni sem ég hef lagt í þetta mál, enda er þetta ekki rekið áfram af mér vegna peninga. Þetta mál er spurning um „prinsipp“ og mannorð.

Þetta mál er spurning um það hvort maður ætli að láta vaða yfir sig og láta snúa sig niður í krafti peninga og hótanna um ærumeiðingar, eða standa í lappirnar og láta menn svara fyrir gjörðir sínar.“

Skúli Gunnar Sigfússon, athafnamaður og eigandi Subway­keðjunnar mun vafalítið svara fyrir sig í dómssal á morgun.vísir/gva

Vill kenna börnunum sínum

Sigmar segist endurtekið hafa leitað sátta hjá Skúla en ekki átt erindi sem erfiði.

„Marg oft hef ég horft í spegil og spurt sjálfan mig að því, hvort þetta sé raunverulega þess virði. Þetta hefur tekið mikið á alla í kringum mig, fjölskyldu og vini.En svarið hefur alltaf á endanum verið JÁ,“ segir Sigmar og útskýrir nánar.





„Já, vegna þess að hvernig sem þetta mál mun fara fyrir dómstólum, þá er það opinbert hvað gerðist og hvernig. Því það er ekki alltaf lög yfir þau brot og þá siðlausu viðskiptahætti sem gögn málsins munu varpa ljósi á. Já, vegna þess að ef ég hefði lagt niður vopnin, þá hefði meðeigandinn minn nuddað mér uppúr því og sagt vinum sínum: „Hvað sagði ég ykkur ekki?“ Já, af því að ég hefði séð eftir því alla ævi að fá ekki úr þessu skorið og að hafa látið undan þessum manni. Já, af því að ég ætla ekki að kenna börnum mínum að það sé í lagi að láta svíkja sig, svívirða og niðurlægja án þess að maður standi á rétti sínum.“

Það sé tvennt sem hann trúi á í lífinu. Annars vegar að hver sé sinnar gæfu smiður og hins vegar að maður eigi að koma fram við náungann eins og maður vill að hann komi fram við sig.

Sigurður G. Guðjónsson gætir hagsmuna Skúla í málinu. Hann gerði tilraun til að vísa málinu frá á sínum tíma en án árangurs.



Uppfært lukkan 18:05 með yfirlýsingu Skúla Gunnars að neðan

Yfirlýsing frá Skúla Gunnari Sigfússyni vegna ávirðinga Sigmars Vilhjálmssonar

„Ég harma persónulegar og vanstilltar ávirðingar Sigmars Vilhjálmssonar í fjölmiðlum. Um er að ræða augljósa tilraun Sigmars til að vinna mál að almenningsáliti, sem hann óttast að tapa í réttarsölum. Málið, sem snýst um lóðarskika á Hvolsvelli, er í lögformlegum farvegi, þar sem slík mál eiga heima. Sannleikurinn kemur í ljós þegar dómstólar fella dóm í því máli. Mér þykir mjög leitt að Sigmar hafi tekið þetta mál svona inn á sig og ég óska honum alls hins besta.“


Tengdar fréttir

Skúli í Subway til rannsóknar hjá saksóknara

Viðskiptagjörningar Skúla Gunnars Sigfússonar, sem oft er kenndur við Subway, eru til rannsóknar hjá Héraðssaksóknara. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari en vill ekki segja til um hvert inntak rannsóknarinnar er eða hvar hún er á vegi stödd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×