Viðskipti innlent

Íslensk fiskiolía nýtur vaxandi vinsælda í Kína

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hylki með íslenskri fiskiolíu njóta vaxandi vinsælda í Kína. Fyrirtækið By-Health, sem er stærsti framleiðandi fæðubótarefna í Kína, kaupir fiskiolíu frá Íslandi og hinum Norðurlöndunum til að nota í afurðir sínar. 

Borgarstjórn Senzhen héraðs í Kína og China Hi-Tech Fair stóðu fyrir hátækni- og nýsköpunarþingi á Hilton Nordica í dag í samstarfi við Íslandsstofu og utanríkisráðuneytið. Á meðal fyrirlesara var Cai Liangping framkvæmdastjóri By-Health. Fyrirtækið hefur fimmtán ár í röð verið með mesta markaðshlutdeild í sölu á fæðubótarefnum í Kína. Fram kom í erindi Liangping að ekkert annað fyrirtæki í heiminum í þessari atvinnugrein verji hærri fjárhæðum í rannsóknir og þróun.

By-Health kaupir hráefni frá 23 ríkjum, meðal annars frá Íslandi. Fyrir tíu árum hóf fyrirtækið innflutning á fiskiolíu í fljótandi formi frá Íslandi sem það markaðssetur og selur í hylkjum undir eigin vörumerki í Kína.

„Við einblínum á þau miklu gæði sem eru í fiskiafurðum íslenskra fyrirtækja. Að okkar mati eru gríðarlega mikil gæði í íslenskum fiski í samanburði við sjávarafurðir frá öðrum ríkjum,“ segir Liangping.

En eru hylki með íslenski fiskiolíu vinsæl í Kína? „ Fiskiolía og svipaðar afurðir frá Noregi, Íslandi og öðrum Norðurlandaþjóðum eru virkilega vinsælar meðal kínverskra neytenda og njóta í raun vaxandi vinsælda.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×