Formúla 1

Alonso tók gullið í sex tíma kappakstri

Anton Ingi Leifsson skrifar
Alonso fagnar.
Alonso fagnar. vísir/afp
Fernando Alonso vann sex klukkutíma belgíska kappaksturinn á Spa brautinni um helgina. Keppnin er fyrsta umferðin í heimsmeistaramótinu í þolakstri.

Í svona keppnum eru þrír ökumenn á hverjum bíl og voru það fyrrum Formúlu 1 ökuþórarnir Sebastian Buemi og Kazuki Nakajima sem keyrðu Toyota Hybrid bílinn til sigurs ásamt Alonso.

Þetta var fyrsti sigur Spánverjans í keppni síðan í spænska Formúlu 1 kappakstrinum árið 2013.

Fernando ætlar sér að keppa heilt tímabil bæði í þolakstri sem og Formúlu 1, næsti kappakstur í þolakstri er hinn heimsfrægi 24. tíma Le Mans.

Það verður því nóg að gera hjá Alonso í sumar, en markmið Spánverjans er að ná sigri í þremur frægustu kappökstrum sögunnar; Monaco, Le Mans og Indy 500.

Fernando hefur nú þegar unnið á götum Monaco og reyndi hann fyrir sér í Indy 500 á síðastliðnu ári en varð frá að hverfa vegna vélarbilunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×