Viðskipti innlent

Skagfirðinga dreymir um öflugri Alexandersflugvöll

Kristján Már Unnarsson skrifar
Freyja Rós Ásdísardóttir, starfsmaður Ernis á Sauðárkróki.
Freyja Rós Ásdísardóttir, starfsmaður Ernis á Sauðárkróki. Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Ráðamenn Sveitarfélagsins Skagafjarðar telja varaflugvöll á Sauðárkróki geta stutt við beint millilandaflug til Akureyrar. Sex mánaða tilraun Ernis til innanlandsflugs á Krókinn stendur fram á vor. Fjallað var um Alexandersflugvöll í fréttum Stöðvar 2. 

Eftir langt hlé hófst áætlunarflug að nýju til Sauðárkróks í vetur en nítján sæta vélar Flugfélagsins Ernis fljúga fjórum sinnum í viku úr Reykjavík.  Freyja Rós Ásdísardóttir, starfsmaður Ernis á Sauðárkróki, segir það hafa verið í desember sem þessi hálfs árs tilraun hófst. 

„Það er bara æðislegt að sjá upplifun allra. Þegar ljósin kvikna á vellinum og vélin kemur inn og fólk heyrir í vélinni. 

En það má nota þetta meira. Þetta er ekki alveg að fara nógu vel af stað. En eitthvað þó,“ segir Freyja Rós og bætir við að slæmt veður í janúar og febrúar hafi sett verulegt strik í reikninginn.

Ásta Pálmadóttir, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Flugsamgöngur hafa lengi verið baráttumál ráðamanna Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sem telja afar brýnt að flugvöllurinn eflist, segir Ásta Pálmadóttir sveitarstjóri. Það séu gríðarleg þægindi að geta flogið á milli, meðal annars vegna þeirrar opinberu þjónustu sem fólk þurfi að sækja. 

„Flugið tekur 35 mínútur á meðan þú ert að minnsta kosti þrjá og hálfan tíma að keyra,“ segir Ásta. 

En hverjir eru að nota flugið? 

„Það eru eiginlega allir. Einstaklingar. Það eru börn að fara til foreldra. Fyrirtækin eru mjög mikið að nota þetta,“ svarar Freyja Rós.

Frá Alexandersflugvelli í Skagafirði.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
En Skagfirðingar hafa stærri drauma. Þeir myndu vilja sjá stærri flugvélar og beint frá útlöndum. Þeir telja Alexandersflugvöll raunar eitt besta flugvallarstæði landsins. 

„Við teljum það. Við teljum að það þurfi ekki mjög mikið að gera og við höfum verið að tala fyrir því að þetta gæti orðið varaflugvöllur fyrir Akureyri. Því að öll viljum við jú dreifa ferðamanninum um landið. 

Það er byrjað flug á Akureyri, sem er bara mjög af hinu góða. Við teljum að við gætum þjónað Norðurlandi mjög vel ef hér yrði varaflugvöllur, til dæmis,“ segir sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Hörður kaupir 32 sæta hraðfleyga skrúfuþotu

Flugfélagið Ernir hefur keypt 32 sæta hraðfleyga skrúfuþotu. Eigandinn, Hörður Guðmundsson, stefnir á tvær til þrjár slíkar, bæði til nota á innanlandsleiðum og í leiguflugi til nágrannalanda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×