Viðskipti innlent

Auðæfi Björgólfs Thors meðal annars sögð felast í rafmyntum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Björgólfur Thor Björgólfsson er sem fyrr eini Íslendingurinn á lista Forbes.
Björgólfur Thor Björgólfsson er sem fyrr eini Íslendingurinn á lista Forbes. Vísir/GVA
Björgólfur Thor Björgólfsson er í 1.215. sæti á lista Forbes yfir ríkustu einstaklinga heims. Auðævi hans eru metin á 2,1 milljarð dollara, um 210 milljarða íslenskra króna.

Er hann sem fyrr eini Íslendingurinn á árlegum lista Forbes sem birtur var í gær en þetta er fjórða árið í röð sem finna má nafn Björgólfs Thors á listanum. Fyrst komst hann á listann árið 2005 en hvarf af honum eftir hrun.

Þrátt fyrir að auðæfi Björgólfs Thors hafi aukist um 300 milljónir dollara á milli ára fellur hann niður um sæti á listanum en á síðasta ári sat Björgólfur Thor í sæti 1161.

Athygli vekur að samkvæmt Forbes er hluti auðæfa Björgólfs Thors bundinn í fjárfestingum í svokölluðum rafmyntum, auk hluta í nýsköpunarfyrirtækjum og fjarskiptafyrirtækjum víða um heim. Rafmyntir á borð við Bitcoin hafa verið töluvert til umfjöllunar á síðustu misserum, Ekki síst vegna mikilla verðsveiflna.

Björgólfur Thor á meðal annars hlut í Verne Global sem rekur gagnaver á Suðurnesjum sem hýst hefur starfsemi fyrirtækja sem grafa eftir rafmyntum, en slíkt starfsemi hefur færst mjög í aukanna að undanförnu, líkt og Vísir fjallaði um á dögunum.

Jeff Bezos, forstjóri Amazon, er efstur á lista Forbes en auðæfi hans eru metin á 112 milljarða dollara en lista Forbes má nálgast hér.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×