Viðskipti innlent

Spá þúsund milljarða framkvæmdum á næstu þremur árum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Miklum framkvæmdum er spáð á næstu árum.
Miklum framkvæmdum er spáð á næstu árum. Vísir/Vilhelm
Á næstu þremur árum er því spáð að framkvæmdir við opinbera innviði, atvinnuhúsnæði og íbúðir muni nema samtals rúmlega 1.000 milljörðum króna. Hagfræðingur Íbúðarlánasjóðs segir nauðsynlegt að leita nýjunga við innviðauppbyggingu til að tryggja aukna framleiðni og lægri kostnað.

Þetta eru á meðal niðurstaðna nýrrar greiningar Íbúðalánasjóðs og Íslenska byggingavettvangsins sem byggir á niðurstöðum rannsóknar á framleiðni í íslenskum byggingariðnaði. Greiningin var kynnt á fjölmennum fundi í höfuðstöðvum Íbúðalánasjóðs í dag.

Gert er ráð fyrir að fjárfesting í atvinnumannvirkjum verði tæpir 500 milljarðar, fjárfesting í íbúðum rúmir 400 milljarðar og fjárfesting í mannvirkjum hins opinbera tæpir 200 milljarðar. Umfang mannvirkjagerðar hér á landi nálgast nú árin fyrir hrun, þó enn sé nokkuð í hápunkt áranna 2006 og 2007.

Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur á íbúðasviði Íbúðalánasjóðs segir að hægt sé að spara gríðarlega fjármuni ef við leitum leiða til að auka framleiðni í greininni.

„Ljóst er að mikil þörf er á uppbyggingu húsnæðis víða um land. Það skiptir miklu máli að sú uppbygging verði hagkvæm og í samræmi við þörf landsmanna. Um árabil hafa Íslendingar búið við miklar sveiflur í húsnæðismálum. Það þarf að minnka þessar sveiflur til þess að auka framleiðni, lækka byggingakostnað og tryggja að húsnæði fáist á viðráðanlegu verði fyrir almenning. Aukin framleiðni í byggingariðnaði er því ekki aðeins góð fyrir þá sem starfa í greininni sjálfri, heldur er hún lykilatriði til að stuðla að auknum stöðugleika í húsnæðismálum,“ segir Ólafur Heiðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×