Viðskipti innlent

Ísland er viðurkennt tækniland

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Arnheiður Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri Ský og UTmessunnar sem fer fram á föstudag og laugardag í Hörpu. Þar gefast tækifæri til að skoða nýjustu tölvu- og tækniframfarir.
Arnheiður Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri Ský og UTmessunnar sem fer fram á föstudag og laugardag í Hörpu. Þar gefast tækifæri til að skoða nýjustu tölvu- og tækniframfarir. MYND/ANTON BRINK
UTmessan verður haldin í áttunda sinn í Hörpu um helgina. Þar geta gestir og gangandi rabbað við vélmenni, teiknað á skjái og hitt gervigreindan markmann, svo fátt sé upptalið.

„NOX hefur það fínt og í ár mætir Titan, stóri bróðir hans á UTmessuna. Hann er hálfur þriðji metri á hæð en mun liprari en NOX og ég hlakka mikið til að hitta hann,“ segir Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri UTmessunar og Ský.

Arnheiður er að tala um vélmennið NOX, sem stal senunni á UTmessunni í fyrra og bróður hans Titan sem verður í bás Origo á laugardag, en ótal margt spennandi ber fyrir augu gesta.

„Það verður enginn svikinn af því að labba um sýningarsvæðið í Hörpu,“ segir Arnheiður. „Þar verður einnig gervigreindur markmaður, skjáir sem hægt er að teikna á, fjarstýrður snjall-vöruflutningabíll sem skynjar umhverfi sitt, netþjónn sem þolir að liggja í baði án þess að skemmast, 360 gráðu upplifun í sýndarveruleika og einnig viðbættur sýndarveruleiki.“

Sjálfkeyrandi bílar á leiðinni

UTmessan hefur fest sig í sessi sem einn helsti vettvangur fyrirlestra, umræðna, skoðanaskipta og nýjunga í tölvugeiranum og endurspeglar mikilvægi tölvutækni í daglegu lífi.

„Þegar kemur að næstu framtíðartækni úr vísindaskáldskap held ég að gervigreind muni spila stórt hlutverk í lífi Íslendinga, sem og sjálfkeyrandi bílar. Gervigreind byggir að miklu leyti á því að nota gögn til að greina og læra, og persónuvernd gagna mun líka verða mikið í umræðunni,“ segir Arnheiður sem er tölvumenntuð og fljót að tileinka sér nýjustu tækni, eins og margir í tölvu- og tæknigeiranum.

„Tæknifólkið byrjar gjarnan fyrr að notfæra sér nýjustu tækni en hefur líka mikinn skilning á því að fólk sem ekki hefur tileinkað sér tæknihugsun geti ekki skipt um stöð eða tengt tæki án aðstoðar. Þess vegna segjum við nú að tölvutæknin sé alls staðar.“

Á UTmessunni gefst færi á að fylgjast betur með tækninýjungum.

„Tvímælalaust,“ segir Arnheiður. „Ég held að margir átti sig engan veginn á hversu margt er í gangi í tækninýjungum hér á landi. Flestir hafa heyrt um sýndarveruleika, gervigreind og viðbættan veruleika, en á UTmessunni getur fólk bæði séð og prófað þessa hluti.“

Arnheiður hlakkar til að hlusta á fyrirlestur Tanmay Bakshi, fjórtán ára Kanadabúa sem hóf störf hjá tölvurisanum IBM aðeins tólf ára.MYND/ANTON BRINK
Menntum börn í tölvutækni

Hugmynd að UTmessunni kviknaði haustið 2010 þegar nokkrir í stjórn Ský veltu fyrir sér stórri ráðstefnu með fjölda fyrirlestra og var fyrsta UTmessan haldin 2011.

„Okkur fannst vanta stóra, óháða tækniráðstefnu fyrir tölvugeirann og ákváðum strax að hún yrði tvískipt sem ráðstefna og opin sýning fyrir gesti og gangandi. Á þeim tíma leituðu fáir í tölvunarfræðinám þrátt fyrir skort á vinnuafli með þá menntun og var eitt af markmiðum UTmessunnar að kynna tölvugeirann sem áhugaverðan starfsvettvang og sýna fram á að tölvufyrirtækin hefðu upp á margt skemmtilegt að bjóða,“ útskýrir Arnheiður.

Árangurinn lét ekki á sér standa og frá því fyrsta UTmessan var haldin hefur orðið gífurleg fjölgun í tölvunarfræðinám háskólanna, þar sem stelpur hafa einnig sótt á og voru í fyrra 30 prósent útskriftarnema. Fyrirtæki landsins ættu því ekki lengur að vera í vandræðum með að ráða inn vel menntað starfsfólk.

Arnheiður segir grunnskólana hafa það hlutverk að undirbúa börn fyrir framtíðina.

„En það getur varla gengið vel á meðan skólarnir spila ekki með raunveruleikann og kenna krökkunum að nýta tæknina til góðs, til dæmis með því að kenna þeim að forrita með snjallsímunum sínum. Skólakerfið þarf að nýta sér þá staðreynd að flestir krakkar eru með snjallsíma og það er auðvelt að nýta það á skemmtilegan hátt í kennslunni.“

Tólf ára í vinnu hjá IBM

Að venju verður UTmessan tvískipt. Föstudagur er ráðstefnudagur fyrir þá sem starfa við og hafa áhuga á tölvugeiranum en á laugardag er opið fyrir almenning að sjá og upplifa.

„UTmessan er frábær fyrir alla fjölskylduna og á síðustu árum hefur hún orðið staðurinn þar sem íslenskir og erlendir sérfræðingar kynna það helsta í þessum geira. Hún endurspeglar allan þann fjölbreytileika, framþróun og möguleika sem upplýsingatæknin býr yfir,“ útskýrir Arnheiður.

Um fimmtíu fyrirtæki verða á sýningarsvæðinu í Hörpu en þar verða mest áberandi stóru fyrirtækin Origo, Opin kerfi, Sensa og Deloitte.

„Út í heim hefur svo frést að næstum allir sem hér starfa að tölvu- og tæknimálum hittist á UTmessunni og því hefur aukist að erlend fyrirtæki sjái sér tækifæri í að vera með. Einnig verða Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Tækniskólinn með risasýningu á laugardag þar sem sýnd verða skemmtileg verkefni sem nemendur í tæknifögum hafa unnið,“ segir Arnheiður.

Eitt af heitustu málefnum tölvu- og tæknigeirans tengjast nú persónuvernd enda tekur ný reglugerð um persónuupplýsingar gildi í maí.

„Við fáum ýmsa sérfræðinga að utan til að segja okkur frá persónuvernd, meðal annars Marc Rotenberg, forseta bandarísku EPIC-samtakanna, sem talinn er aðal rokkstjarnan á því sviði. Einnig Bjorn Eric Thon, forstjóra norsku persónuverndarstofnunarinnar, sem er eftirsóttur fyrirlesari og Glen Koskela frá Finnlandi sem mun segja ráðstefnugestum frá „Digital Transformation“. Frá Portúgal kemur Rui Manuel Gidro frá Deloitte og segir frá snjallvæðingu borga og síðast en ekki síst kemur Tanmay Bakshi, fjórtán ára kanadískur strákur sem byrjaði að forrita fimm ára og vinna fyrir IBM tólf ára. Þá er alltaf gaman að fá Íslendinga til að segja frá áhugaverðum hlutum og við hlustum á fyrirlestur tveggja íslenskra starfsmanna Google,“ upplýsir Arnheiður sem er einkar spennt fyrir að hitta Tanmay Bakshi.

Ísland framarlega í tækni

UTmessan dregur til sín marga og undanfarin ár hafa þúsundir gesta mætt til messu.

„Á ráðstefnuna mæta flestir sem hafa áhuga á tölvutækni; forstjórar, framkvæmdastjórar, kerfisstjórar, forritarar, verkefnisstjórar, markaðsstjórar og mannauðsstjórar enda eru tölvumál fyrirtækja ekki lengur á ábyrgð tölvudeildarinnar einnar. Á laugardeginum mæta svo þúsundir landsmanna sem eru forvitnir um nýjustu framfarir og tækninýjungar,“ upplýsir Arnheiður.

Hún segir Íslendinga standa framarlega í tölvu- og tæknigeiranum.

„Það sér maður víða. Hjá rótgrónum fyrirtækjum, eins og Marel, sem nota nýjustu tækni í gervigreind til að þróa og prófa tæki áður en þau fara á markað, og hjá fjölmörgum íslenskum sprotafyrirtækjum sem eru uppfull af nýjum og áhugaverðum hugmyndum. Ísland hefur því stimplað sig inn sem tækniland fyrir löngu.“

Skoðaðu dagskrá UTmessunnar á utmessan.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×