Handbolti

Enn verið að mála keppnishöllina í Split

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hér má sjá málarann að störfum. Hann var ekki stressaður þó svo íslenskir fjölmiðlamenn hafi haft áhyggjur af honum.
Hér má sjá málarann að störfum. Hann var ekki stressaður þó svo íslenskir fjölmiðlamenn hafi haft áhyggjur af honum. vísir/hbg
Það er rétt rúmur sólarhringur í að keppni hefjist í riðli Íslands á EM í Split. Þegar blaðamaður Vísis mætti á svæðið nú undir hádegi sá hann strax að ekki er allt tilbúið.

Það muna eflaust margir eftir því að minnstu mátti muna að riðillinn yrði færður í aðra borg þar sem vandræði voru með Paladium-keppnishöllina í Split. Hún ku hafa verið í niðurníslu og ýmislegt sem þarf að lappa upp á.

Það er svo sannarlega rétt og eitt það fyrsta sem ég sá við komu í höllina var maður á þriðju hæð að mála. Mesta athygli vakti þó að hann var ekki í neinni öryggislínu og plássið sem hann var að vinna með ekki mikið. Málarinn engu að síður silkislakur að störfum.

Inn í höllinni virðist nánast allt annars vera tilbúið. Höllin er afar glæsileg. Tekur um ellefu þúsund manns í sæti og það góð sæti. Stemningin í Paladium á morgun verður örugglega frábær og vonandi búið að mála.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×