Skoðun

Framtíð laxeldis er í lokuðum kerfum

Gísli Sigurðsson skrifar
Það er óumdeilt að laxeldi í opnum sjókvíum veldur miklum umhverfisskaða: 1) Almenn mengun spillir nærumhverfinu, 2) sjúkdómar og lúsafaraldrar magnast upp í kringum eldið og laxalúsin leggst bæði á eldisfiskinn og villta laxfiska í 100-200 km fjarlægð frá eldinu og dregur þá til dauða, 3) eldisfiskar sleppa alltaf út og valda erfðablöndun í villtum laxastofnum í allt að 2000 km fjarlægð.

 

Hægt er að kynna sér þessi miklu umhverfisáhrif í skýrslu Norsku ríkisendurskoðunarinnar frá árinu 2012 . Þá er nýkomin skýrsla norska vísindaráðsins um ástand villtra laxa í Noregi þar sem enn eru dregin fram hin neikvæðu umhverfisáhrif eldisins.

 

Vegna þessara miklu og neikvæðu umhverfisáhrifa auglýstu norsk stjórnvöld árið 2015 eftir hugmyndum að þróunarverkefnum í fiskeldi sem gætu undið ofan af þeim mikla skaða sem eldið hafði valdið í Noregi. Veglegir styrkir voru í boði til nýsköpunar á þessu sviði og var tekið á móti umsóknum frá 20. nóvember 2015 til 17. nóvember 2017. Nú hafa átta verkefni af þeim 45 sem tekin voru til efnislegrar skoðunar hlotið styrki til áframhaldandi þróunar.

 

Í fyrravor tóku Samtök norska iðnaðarins (Norsk industri) undir með stjórnvöldum í þessari stefnumótun og settu markið á að árið 2030 yrði hægt að ala lax við Noreg án þeirra neikvæðu umhverfisáhrifa sem rakin voru hér að framan og eru óhjákvæmilegur fylgifiskur opins sjókvíaeldis.

 

Íslensk stjórnvöld ættu að bjóða þessi norsku nýsköpunarverkefni velkomin hingað til lands – þar sem mikill áhugi virðist vera fyrir auknu laxeldi til atvinnu- og verðmætasköpunar hér á landi – með þeim ívilnunum sem stjórnvöld geta veitt vaxtarbroddum í atvinnulífi. Þannig mætti stilla Íslandi upp í fremstu röð og taka strax stefnuna á umhverfisvænt laxeldi í sjó í stað þess að láta okkur taka fortíðarvanda Norðmanna í arf hér á landi – á meðan þeir sjálfir stefna í aðra átt heima hjá sér.


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.