Ástæðuna má rekja til þess að fyrir helgi urðu ÁTVR á mistök við útreikning launa og rangur launabunki var sendur Íslandsbanka, viðskiptabanka ÁTVR, sem greiðir út launin til starfsfólks. Fljótlega varð stjórnendum ljóst að launin höfðu ekki verið greidd rétt út og voru þau því bakfærð. Hluti starfsmanna fékk svo launin rétt greidd inn á sinn launareikning.

„Það fer frá okkur röng færsla til bankans og leiðrétting fer í gang stuttu síðar. Hins vegar tekst ekki að leiðrétta hjá hluta þeirra sem fengu laun. Af þeim 530 starfsmönnum sem fá greidd laun frá okkur lenda 40 starfsmenn í þessum mistökum,“ segir Sigrún Ósk.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kom þetta illa við nokkra starfsmenn Vínbúðanna.
Starfsmenn sem vildu ekki ræða þetta undir nafni segja að fyrirtækið hafi reynt allt hvað það gerði til að leiðrétta mistökin en án árangurs. Einhverjir starfsmenn hafi því lent í mínus í bankanum vegna þessa.
Þó að Vínbúðin þurfi ekki að greiða laun fyrr en fyrsta virka dag hvers mánaðar hefur fyrirtækið alltaf viljað gera vel við sína starfsmenn með því að greiða út fyrir helgi ef nýr mánuður rennur upp um helgi.
„Auðvitað veldur þetta óþægindum og við höfum verið í sambandi við okkar starfsfólk. Þetta eru leiðinleg mistök. Við verðum í sambandi við þá einstaklinga strax í bítið til að leysa þetta fljótt og örugglega í samstarfi við starfsfólk. Margir fengu laun greidd en hluti fékk þau ekki,“ bætir Sigrún Ósk við.