Það hefur varla farið framhjá mörgum að bandaríski verslunarrisinn Costco opnaði búð sína í Garðabæ fyrir rúmri viku. Síðan þá hafa landsmenn vart talað um annað, hvort sem það er í heita pottunum eða á samfélagsmiðlum og er Facebook-hópurinn „Costco á Íslandi – verð og myndir“ sá vinsælasti í dag.
Eins og gefur að skilja er verðlagið í Costco mikið rætt enda er vöruverð þar í mörgum tilfellum lægra en það sem Íslendingar hafa átt að venjast. Almenningur spyr sig því hvort að hér hafi verið okrað á sér árum og áratugum saman en Margrét bendir á að það þurfi að bera saman sambærilegar vörur og ekki vörur sem eru keyptar í Costco, sem sé heildsala, og síðan kannski í sérverslun.
Aðspurð hvort henni þætti umræðan ekki alltaf á málefnalegum grunni sagði Margrét:
„Umræðuhefð almennt á Íslandi er mjög mikið í fyrirsögnum og upphrópunum og þetta er dálítið birtingarmynd af því. Það er að koma núna inn risi á markaðinn, heildsölurisi, en þeir selja líka í smásölu og þetta er sá næststærsti í heimi. Þannig að þetta er bara gríðarlega góð frétt fyrir Íslendinga að svona risar séu að horfa hingað. Þetta eykur samkeppni en að vera að tala um okur og glæpamenn til þeirra sem fyrir eru finnst mér ekki mjög málefnalegt.“
Margrét sagði að hvar sem Costco hefur opnað í heiminum þá hafi þeir hrist upp í markaðnum.
„Þeir eru dálítið öðruvísi en aðrar verslanir og oft hefur þetta jafnað sig en ég held að það hafi engan órað fyrir þessari geðveiki sem er hérna á Íslandi. Þegar verið er að horfa á verðmun á milli Costco og verslana þá er þetta ekkert ósvipað því sem menn hafa verið að sjá í öðrum löndum,“ sagði Margrét.
Þá sagði hún verslunina fagna samkeppninni og kvaðst sjálf myndu fagna því ef við myndum fá almennilega umræðu um verð á Íslandi.
„Því vitund fólk og þekking á verði er alltaf að verða betri og það er gott fyrir samkeppni.“
Viðtalið við Margréti má heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.