Körfubolti

Dagný studdi „Gnúp-þjóðina“ til afar óvænts sigurs á Selfossi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir með Tómasi Steindórssyni, fyrirliða Gnúp-þjóðarinnar.
Dagný Brynjarsdóttir með Tómasi Steindórssyni, fyrirliða Gnúp-þjóðarinnar. mynd/Gnúpverjar

Gnúpverjar, nýliðar í 1. deild karla í körfubolta, eru heldur betur að koma á óvart við upphaf leiktíðar en þetta áhugaverða lið, sem var spáð neðsta sæti deildarinnar, vann sinn annan leik í röð í gærkvöldi.

Það gott betur en það heldur vann það nokkuð sannfærandi útisigur á FSu sem var spáð þriðja sæti fyrir tímabilið, 96-87. Þetta er annar sigur liðsins í röð en í síðustu umferð lögðu Gnúpverjar Skagamenn, 83-80.

Gnúpverjar er meira en bara lið, þetta er lífstíll, eða það er allavega eitt mottó liðsins. Enginn leikmaður fær greitt nema Bandaríkjamaðurinn Everage Lee Richardson sem skoraði 47 stig í gær. Aðrir eru í þessu af hugsjón.

Liðið er það besta í markaðssetningu í 1. deildinni og mögulega af öllum körfuboltaliðum á Íslandi en fyrir leiktíðina voru seldar derhúfur sem gilda sem ársmiðar á leiki liðsins og þá er liðið byrjað með sjónvarpsþátt á netinu.

Leikurinn í gær var sannkallaður suðurlandsslagur og í Iðu á Selfossi var drottning suðurlandsins mætt, Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta.

Dagný skartaði Gnúpverja, eða Gnúp-þjóðar derhúfu, og fékk mynd af sér með Tómasi Steindórssyni, fyrirliða Gnúpverja, eftir leik. Sé allt satt og rétt sem kemur fram í leikskýrslu Gnúpverja er það uppáhaldsleikmaður hennar í liðinu.

Gnúpverjar mæta næst ósigruðu liði Skallagríms 2. nóvember í Kórnum klukkan 20.30 og verður fróðlegt að sjá hvort ævintýrið hjá Gnúp-þjóðinni haldi áfram.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.