Skoðun

Faglegt frelsi – styrkjum stöðu kennara!

Þórður Hjaltested og Aðalheiður Steingrímsdóttir skrifar
Í dag, 5. október, er Alþjóðadagur kennara haldinn hátíðlegur víðs vegar um heim undir yfirskriftinni: „Faglegt frelsi – styrkjum stöðu kennara“ og er tilgangurinn að vekja athygli á mikilvægi kennarastarfsins fyrir menntun og farsæld barna og ungmenna og þróun samfélagsins.

Í mörgum heimsálfum vantar milljónir kennara til starfa til að unnt sé að framfylgja markmiðum Sameinuðu þjóðanna um menntun, farsæld og sjálfbæra þróun, og hér á landi sem og víða á Vesturlöndum eru blikur á lofti vegna kennaraskorts. Tölur um kynja- og aldurssamsetningu íslenskrar kennarastéttar sýna að staðan er grafalvarleg. Fjölmennir hópar kennara og skólastjórnenda á öllum skólastigum munu láta af störfum vegna aldurs innan skamms tíma, mikill og viðvarandi skortur er á leikskólakennurum í leikskólum landsins og erfiðar starfsaðstæður eiga þátt í að kennarar leita annað.

Kennaraskorturinn er ekki einkamál kennarastéttarinnar heldur snýst um viðgang menntakerfisins til framtíðar og menntun komandi kynslóða. Það er réttur allra barna og ungmenna að hafa greiðan aðgang að góðri og fjölbreyttri menntun, óháð þörfum, efnahag og uppruna, og að njóta leiðsagnar menntaðra kennara. Það skiptir höfuðmáli fyrir vöxt og viðgang samfélagsins að hlúa vel að menntun og farsæld allra barna og ungmenna, og að kennarastarfinu. Vanda þarf í hvívetna til kennarastarfsins, menntunar kennara, launa og starfsaðstæðna svo að þeir geti verið öllum nemendum að sem mestu liði til framtíðar, faglega og persónulega, og aðlagað starfið að síbreytilegum áherslum og kröfum.

Það er óásættanlegt að íslenskir kennarar séu settir í þá stöðu að þurfa reglubundið að fara í hörð átök til að lagfæra launakjörin miðað við hópa á opinberum vinnumarkaði með sambærilega menntun, vegna andvaraleysis stjórnvalda. Og þrátt fyrir fögur orð um mikilvægi menntunar þá sýna nýjar tölur frá Hagstofunni að á árabilinu frá 2008 til 2016 drógust opinber útgjöld til fræðslumála að teknu tilliti til mannfjölda saman um 13,5% að raungildi. Víðtæk áhrif kreppunnar í kjölfar hrunsins 2008 á skólastarfið eru engan veginn gengin til baka.

Samfélagið gerir kröfu um góða menntun barna og ungmenna og að íslenskir skólar standi í fremstu röð. Þessar kröfur kosta fé. Í komandi Alþingiskosningum þarf að verða til þjóðarsátt um að menntakerfið fái þá fjármuni sem til þarf svo það geti staðið undir þessum kröfum. Stjórnvöld þurfa að sýna í verki virðingu fyrir menntun og að meta kennarastarfið að verðleikum með því að styrkja stöðu kennara og búa vel að stéttinni til að sinna mikilvægu starfi, með hvetjandi og skapandi starfsumhverfi og samkeppnishæfum launum. Um þetta brýna verkefni þurfa margir að taka höndum saman, Alþingi, stjórnvöld, kennarar, skólar, foreldrar, almenningur og fjölmiðlar.

Að standa með kennurum og meta að verðleikum skilar sér margfalt. Það skilar sér í aukinni nýliðun í kennslu og þar með öflugra menntakerfi og menntun, og síðast en ekki síst betra samfélagi fyrir börn og ungmenni þar sem jafnræði og lýðræði er haft að leiðarljósi.

Kæru kennarar – Til hamingju með kennaradaginn!

Þórður Á. Hjaltested er formaður KÍ.

Aðalheiður Steingrímsdóttir er varaformaður KÍ.




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×