Körfubolti

Herbergisfélagarnir hlógu saman að því þegar Hlynur var blokkaður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson í leiknum við Grikki.
Hlynur Bæringsson í leiknum við Grikki. Vísir/Ernir
Ein tilþrif úr leik Íslands og Grikklands komust í hóp flottustu tilþrifanna á fyrsta degi Eurobasket og voru þau tilþrif á kostnað landsliðsfyrirliðans Hlyns Bæringssonar.

Hlynur gerði vel í að keyra framhjá sínum manni og upp að körfu í leiknum en þegar hann ætlaði að leggja boltann í körfuna þá birtist Thanasis Antetokounmpo og varði skotið hans með miklu tilþrifum.

Thanasis Antetokounmpo er bróðir NBA-stórstjörnunnar Giannis Antetokounmpo en þeir eru frábærir íþróttamenn með ótrúlegan stökkkraft. Hlynur gat ekkert annað en brosað af atvikinu en það var síðan aðeins til umræðu heima á hóteli eftir leik.

Hlynur og Pavel Ermolinskij deila herbergi á mótinu og auðvitað var Grikklandsleikurinn aðeins til umræðu fyrir nætursvefninn.

„Við töluðum bara saman eins og venjulega. Við ræddum einhverja tvo til þrjá hluti sem fóru úrskeiðis en skipta okkur engu máli í stóra samhenginu,“ sagði Pavel en bætti svo við:

„Við hlógum síðan báðir af því þegar Hlynur var blokkaður. Það var eiginlega aðllega það sem var rætt. Þetta sat ekki lengi í mönnum. Þetta er svo fljótt að gerast hérna,“ sagði Pavel.

Næsti leikur er á móti Póllandi á morgun og vonandi verður þetta varða skot ekkert að trufla landsliðsfyrirliðann þegar hann keyrir næst upp að körfu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×