Körfubolti

Logi: Við hlökkum mikið til að fara í þessa síðustu tvo leiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska landsliðið fyrir leik á móti Frökkum.
Íslenska landsliðið fyrir leik á móti Frökkum. Vísir/Ernir
Logi Gunnarsson segir að íslensku strákarnir í körfuboltalandsliðinu séu ekki komnir í eitthvað þunglyndi þrátt fyrir þrjú 30 stiga töp í röð á Eurobasket.

Logi hefur ekki alveg fundið körfuna í mótinu en smitar alltaf út frá sér með leikgleði og baráttu. Hann er ekkert að missa hausinn þrátt fyrir mótlætið.

Framundan eru leikir á móti Slóvenum og Finnum sem hafa enn ekki tapað fyrir öðrum liðum á mótinu en Slóvenar unnu innbyrðisviðureign liðanna eftir mjög spennandi leik.

„Við spilum aftur tvo erfiða leiki í röð. Það er flott og við hlökkum mikið til að fara í þessa leiki. Það er gaman að spila á móti þessum stóru þjóðum og við erum hvergi bangnir. Það þýðir ekkert,“ sagði Logi eftir leikinn á móti Frökkum í gær.

Íslenska liðið átti flottan fyrri hálfleik og var bara sjö stigum undir í hálfleik. Leikurinn tapaðist hinsvegar á endanum með 36 stigum.

„Eins og ég er oft búinn að segja. Frakkarnir eru eitt af fáum liðum í heiminum sem hafa átt einhvern möguleika á móti Bandaríkjunum síðustu ár ásamt Spánverjunum og Serbunum,“ sagði Logi.

„Þeir eru uppi í þessum hópi hjá þeim. Í þessu liðið þeirra eru allir leikmenn í NBA-deildinni eða í Euroleague. Það er bara áskorun að fá að spila við þessa stráka og við gefumst aldrei upp,“ sagði Logi.






Tengdar fréttir

Tilfinningar sem við höfum ekki fundið fyrir áður

Jón Arnór Stefánsson átti flottan leik gegn Frökkum í gær en það dugði skammt gegn einu besta liði heims. Jón segir að íslenska liðið hafi aldrei upplifað svona vonbrigði áður sem lið eins og að steinliggja á móti Pólverjum á laugardaginn. Jón vill njóta leikjanna sem eftir eru en gætu þeir verið hans síðustu fyrir landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×