Körfubolti

Hlynur: Langar ekki að vera hent út úr landsliðinu

Landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bæringsson var að vonum svekktur eftir tapið fyrir Finnum í lokaleik Íslendinga á EM í körfubolta.

„Þegar við vorum sjö stigum yfir hittum við ekki úr opnum þristum sem hefðu getað drepið þá,“ sagði Hlynur í samtali við Arnar Björnsson eftir leik.

„Við vorum orðnir ansi lappalausir undir restina. Það var ekki mikið eftir á tankinum. Ég viðurkenni að ég var alveg búinn á því undir lokin.“

En var þetta síðasti landsleikur Hlyns á ferlinum?

„Ég hef ekki tekið ákvörðun en auðvitað hef ég hugsað um það. Ég held að það sé ágætt að taka ekki ákvarðanir núna. Ég er ekki alveg í standi til þess. En auðvitað sér maður ferilinn „flassa“ fyrir augunum á sér. Það er ansi langt síðan maður byrjaði og þetta er djöfulsins hark stundum,“ sagði Hlynur.

„Maður finnur að maður er ekki eilífur. Maður reynir að halda í þetta en má ekki gera það of lengi. Mig langar ekki að vera hent út.“

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×