Viðskipti innlent

Bjóða upp Kjarvalsverk sem metið er á allt að átta milljónir króna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ljósmynd af verkinu eftir Jóhannes S. Kjarval sem boðið verður upp í Gallerí Fold á mánudagskvöld.
Ljósmynd af verkinu eftir Jóhannes S. Kjarval sem boðið verður upp í Gallerí Fold á mánudagskvöld.
Fyrsta uppboð haustsins í Gallerí Fold fer fram næstkomandi mánudagskvöld og hefst klukkan 18 í húsnæði gallerísins.

Þar verður meðal annars boðið upp málverk eftir einn þekktasta myndlistarmann þjóðarinnar, Jóhannes S. Kjarval, frá árinu 1935 sem sýnir fólk í leik við Vífilfell. Verkið er metið á sex til átta milljónir króna.

Í tilkynningu frá Gallerí Fold vegna uppboðsins segir að það sé óvenjulegt að því leyti að fleiri verk flokkast sem úrvalsverk en að jafnaði. Þá komi verk á borð við Kjarvalsverkið örsjaldan í sölu og segir að telja megi þau skipti sem slíkt verk hefur boðist á síðustu tíu árum á fingrum annarrar handar.

Tvö verk frá Cobra-tímabili Svavars Guðnasonar verða síðan boðin upp en ekki er algengt að verk frá þessu tímabili fari í sölu. Þá verða boðin upp fjögur verk eftir Gunnlaug Blöndal, Mugg, Nínu Tryggvadóttur og Þorvald Skúlason svo eitthvað sé nefnt.

Fjölmörg verk samtímalistamanna verða auk þess boðin upp, meðal annars verk eftir Karólínu Lárusdóttur, Huldu Hákon, Helga  Þorgils og Tryggva Ólafsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×