Viðskipti innlent

Sterk merki um kólnun skýra lækkanir

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Eftir skarpa hækkun í aprílmánuði hefur hlutabréfaverð verið á niðurleið í allt sumar. Fyrir utan gengi bréfa í Högum hefur gengi skráðu fasteignafélaganna lækkað hlutfallslega mest.
Eftir skarpa hækkun í aprílmánuði hefur hlutabréfaverð verið á niðurleið í allt sumar. Fyrir utan gengi bréfa í Högum hefur gengi skráðu fasteignafélaganna lækkað hlutfallslega mest. Vísir/Stefán
Vísbendingar um að hægst hafi á vexti hagkerfisins skýra að hluta til þær lækkanir sem orðið hafa á innlendum hlutabréfamarkaði í sumar, að mati sérfræðinga sem Fréttablaðið ræddi við. Einn þeirra segir að fjárfestar selji nú í meiri mæli en áður hlutabréf sem gefið hafa af sér ríkulegan arð síðustu ár og leiti þess í stað í öruggari fjárfestingarkosti.

„Ég hugsa að verðþróun á hlutabréfamarkaðinum í sumar taki að miklu leyti mið af þeirri tilfinningu sem fólk hefur fyrir gangi hagkerfisins, að það sé aðeins farið að kólna,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka.

Sveinn Þórarinsson, greinandi í hagfræðideild Landsbankans, segir fjárfesta draga mögulega upp dekkri mynd en áður af þróun efnahagsmála. Þeir séu síður reiðubúnir til þess að taka þá áhættu sem felst í kaupum á hlutabréfum.

Eftir skarpa hækkun í aprílmánuði hefur úrvalsvísitala Kauphallarinnar verið á niðurleið síðan í byrjun maímánaðar. Alls hefur vísitalan lækkað um 12,7 prósent frá 8. maí síðastliðnum. Þrátt fyrir að flest skráðu félaganna hafi skilað ágætis hálfsársuppgjörum á undanförnum vikum hefur lítið lát verið á lækkunarhrinunni. Þannig hefur úrvalsvísitalan fallið um 5,7 prósent í ágústmánuði.

Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka
Gengi bréfa í Högum hefur lækkað hvað mest í sumar eða um rúm 35 prósent frá því í byrjun maí, en þar fyrir utan hafa hlutabréf fasteignafélaganna þriggja, Eikar, Regins og Reita, lækkað hlutfallslega mest í verði. Viðmælendur Fréttablaðsins telja enga einhlíta skýringu vera á verra gengi fasteignafélaganna. Hún hafi jafnvel komið nokkuð á óvart. Annar bendir á að verð félaganna sveiflist alla jafna í takt við ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði. Krafan hafi hækkað verulega í sumar og því sé ekki óeðlilegt að fasteignafélögin hafi fallið í verði.

Lægri hagvaxtarspá

Margt bendir til þess að hægst hafi á vexti ferðaþjónustunnar. Í hausthefti Peningamála Seðlabanka Íslands er meðal annars bent á að meðalútgjöld á hvern ferðamann hafi dregist saman á árinu. Gefa greiðslukortatölur til kynna að svo verði áfram. Eins benda tölur um fjölda gistinátta til þess að ferðamenn dvelji skemur hér á landi en áður. Ekki er búist við því að ferðamönnum fækki en svo virðist sem hægst hafi á fjölgun þeirra. Minni vöxtur ferðaþjónustunnar gæti leitt til minni hagvaxtar. Þannig niðurfærði Seðlabankinn í síðustu viku hagvaxtarspá sína úr 6,3 í 5,2 prósent. Býst bankinn nú við 3,3 prósenta hagvexti á næsta ári, en áður spáði hann 3,5 prósenta vexti.

Stefán Broddi segir að ein birtingarmynd þess að farið sé að kólna í hagkerfinu sé gengisþróun krónunnar. „Gengi krónunnar hefur veikst í sumar þvert á væntingar margra. Það felur í sér að meiri verðbólga kunni að vera í kortunum en margir hafi vænst áður. Það smitast aftur út á skuldabréfamarkaðinn og gerir það að verkum að langtímavextir þar hafa farið hækkandi. Þegar þeir hækka gera fjárfestar hærri ávöxtunarkröfu til félaga á hlutabréfamarkaðinum.



Það fer þá saman að fjárfestar draga úr væntingum sínum til þess virðis sem félögin geta skapað og gera auk þess hærri kröfu til félaganna. Þetta hangir því allt saman,“ segir hann.

Sem dæmi um áhrifin bendir Stefán Broddi á að ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréfum hafi lækkað í gær eftir að Hagstofa Íslands birti nýjar verðbólgutölur þar sem verðbólgan reyndist minni en greinendur höfðu gert ráð fyrir. Krafan hafi haft bein áhrif á hlutabréfamarkaðinn sem tók örlítið við sér.

Auk þess nefnir hann að áhrifin af innreið bandaríska risans Costco á innlendan markað hafi verið meiri en margir reiknuðu með. Verslunin hafi hrist upp í bæði dagvöru- og eldsneytismarkaðinum. Keppinautar verslunarinnar hafi fundið fyrir því.

Krónan hausverkur

Sveinn segir að þrátt fyrir að hlutabréfaverð virðist almennt ekki vera of hátt hafi dregið úr vilja fjárfesta til þess að „stökkva inn á markaðinn“.

„Miklar sveiflur á gengi krónunnar hafa valdið mönnum hugarangri og þá eru ákveðnar vísbendingar um að hægst hafi á vexti ferðaþjónustunnar, sem hefur verið drifkrafturinn í vexti þjóðarbúsins undanfarin ár,“ segir hann.

Sveinn tekur auk þess fram að veltan á markaðinum sé að jafnaði ekki stórvægileg yfir sumartímann. Allar hreyfingar á markaðinum verði því ýktari en ella. „Það þarf ekki marga á söluhliðinni til þess að hreyfa við verðinu ef enginn er á kauphliðinni,“ nefnir hann.

Gengi krónunnar, sem hafi verið afar sveiflukennt síðustu mánuði, sé einnig áhrifaþáttur á hlutabréfamarkaði. „Stór hluti af markaðinum, félög eins og Icelandair, Marel, HB Grandi, Össur og Eimskip, er með erlent sjóðstreymi og varðandi hlutabréfaverð slíkra félaga skiptir gengi krónunnar miklu máli. Þó virðist gengisþróunin ekki beint skýra þessa lækkun á hlutabréfamarkaðinum í sumar, því krónan hefur verið að veikjast á sama tíma og úrvalsvísitalan lækkar. Það ætti í raun að vera öfugt, miðað við þunga erlends tekjusjóðstreymis í mörgum félögum,“ segir Sveinn.

Hins vegar valdi mikið flökt á genginu fjárfestum hugarangri og geri það að verkum að þeir haldi fremur að sér höndum.

Stefán Broddi segir ekki ólíklegt að dregið hafi úr flæði í innlend hlutabréf síðustu mánuði, eftir að losað var um fjármagnshöftin fyrr í vetur. „Í framhaldi af þeim aðgerðum jukust tækifæri innlendra fjárfesta til þess að fara með fé sitt úr landi og þá hafa lífeyrissjóðir haldið áfram að fjárfesta erlendis. Það er eðlileg þróun. Ég efast þó um að það sé stærsta skýringin á lækkun hlutabréfaverðs. Gögn frá Seðlabankanum um verðbréfafjárfestingu innlendra aðila erlendis gefa sömuleiðis ekki til kynna að stórkostlegar breytingar hafi átt sér stað í erlendum fjárfestingum lífeyrissjóðanna. Þetta er bara framhald á þeirri þróun sem verið hefur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×