Viðskipti innlent

VÍS hagnast um 1,1 milljarð

Sæunn Gísladóttir skrifar
Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, segir annan ársfjórðung hafa verið félaginu hagfelldan.
Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, segir annan ársfjórðung hafa verið félaginu hagfelldan.
Tryggingafélagið VÍS hagnaðist um 1.107 milljónir króna á fyrri helming ársins 2017, samanborið við 238 milljónir króna á sama tímabili árið 2016. Hagnaður á hlut nam 0,50 krónum samanborið við 0,10 krónur fyrir sama tímabil árið 2016.

Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að bókfærð iðgjöld jukust um 16,7 prósent frá sama tíma í fyrra. Kostnaðarhlutfall lækkaði í 20,8 prósent úr 22 prósent á sama tíma í fyrra.

Samsett hlutfall var 95,4 prósent en var 104,8 prósent á sama tímabili í fyrra. Tekjur af fjárfestingastarfsemi námu 1.152 milljónum króna, samanborið við 636 milljónir króna á sama tíma 2016.

 „Annar ársfjórðungur var félaginu hagfelldur. Samsett hlutfall var 84,2% sem er með því lægsta sem við höfum séð um langt árabil og var afkoma viðunandi af flestum vátryggingagreinum á tímabilinu.  Sá iðgjaldavöxtur sem við höfum séð síðustu misseri heldur áfram og er þar bæði um að ræða hærri meðaliðgjöld, en einnig ný viðskipti.  Þannig eru eigin iðgjöld að vaxa um 15,6% frá sama tímabili í fyrra.  Félagið hefur frá árinu 2015 unnið að breytingum á iðgjöldum til að bregðast við mikilli hækkun í tíðni tjóna og tjónakostnaðar. Því er niðurstaða fjórðungsins gleðiefni og vonast er til að farið sé að draga úr þeirri miklu hækkun tjónakostnaðar,“ segir Helgi Bjarnason forstjóri VÍS í tilkynningu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×