Viðskipti innlent

Rannsókn á innherjasvikum miðar ágætlega

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Yfirmaðurinn var sendur í leyfi frá störfum.
Yfirmaðurinn var sendur í leyfi frá störfum. vísir/anton brink
Rannsókn héraðssaksóknara á meintum innherja­svikum yfirmanns hjá Icelandair er ágætlega á veg komin. Ekki er þó vitað hvenær henni lýkur, að sögn Ólafs Þórs Haukssonar héraðssaksóknara.

Eins og Fréttablaðið greindi frá um miðjan síðasta mánuð beinist rannsókn héraðssaksóknara að umfangsmiklum viðskiptum með hlutabréf í Icelandair Group sem gerð voru í aðdraganda þess að félagið sendi frá sér afkomutilkynningar til Kauphallarinnar.

Er hópur manna grunaður um að hafa nýtt sér í nokkur skipti innherjaupplýsingar sem þeir fengu frá yfirmanni hjá Icelandair. Yfirmaðurinn var sendur í leyfi frá störfum þegar málið komst upp í lok maí síðastliðins.

Mennirnir gerðu svonefnda framvirka samninga við innlendar fjármálastofnanir, þar á meðal Landsbankann, en ljóst þykir að þær hafi tapað háum fjárhæðum á samningunum.

Héraðssaksóknari hefur kyrrsett tugi milljóna króna vegna málsins, en fjármunirnir eru ætlaður hagnaður mannanna af viðskiptunum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×