Ferðamannaóværan Óttar Guðmundsson skrifar 7. ágúst 2017 17:00 Reglulega birtast viðtöl við íbúa í miðborg Reykjavíkur sem kvarta undan ágangi ferðamanna. Þeir fá ekki svefnfrið vegna hópbifreiða og túrista með háværar ferðatöskur á hjólum. Bændur segja frá ferðamönnum sem kúka í hlaðvarpanum og gefa hestum brauð á víðavangi. Björgunarsveitir tala um aukna tíðni raunverulegra og ónauðsynlegra útkalla. Vegfarendur eru í bráðri lífshættu vegna kínverskra ökumanna á vegunum. Túristar baða sig ekki eins og innfæddir og menga sundlaugarnar. Smám saman hefur þjóðin áttað sig á því að ferðamenn eru engisprettufaraldur sem verður að stöðva. Nú hafa máttarstólpar samfélagsins tekið höndum saman til að losa okkur við óværuna. Þar ganga fremstir hóteleigendur og veitingamenn sem verðleggja túrismann svo hátt að mikill fjöldi hættir við að koma og hinir koma aldrei aftur. Fjögurra fermetra herbergi undir súð með aðgangi að salerni kostar viðlíka og gisting á fjögurra stjörnu hóteli í Evrópu. Sveittur hamborgari með frönskum kostar eins og þriggja rétta máltíð á meginlandinu. Ferð í Bláa lónið er verðlögð eins og óperusýning, bjórinn eins og eðalkampavín. Neikvæð fjölmiðlaumfjöllun brýnir almenning til dáða. Ósköp venjuleg amerísk hjón sögðu nýlega að almennir borgarar hefðu veist að þeim fyrir að ganga örna sinn á almannafæri. Með þessu samstillta átaki þjóðar og aðila í ferðaþjónustu tekst að losa landið við ferðamenn. Íslendingar geta unað glaðir í landinu sínu án þess að hafa útlendinga í litríkum vindjökkum og fjallgönguskóm fyrir augum. Nýbyggðu hótelunum má breyta í vistarverur fyrir hælisleitendur, fangelsi og meðferðarstofnanir. Nú verður aftur kátt í höllinni eins og hjá Þyrnirós heitinni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Óttar Guðmundsson Mest lesið Kæru valkyrjur, hatrið sigraði líklega í þetta skiptið Arnar Laxdal Skoðun Hverjir eiga Ísland? Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Stjórnmál sem virka og lýðræði sem kemst ekki fyrir í umslagi Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ríkisstjórnin stóð af sér áhlaup sérhagsmuna Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Vönduð vinnubrögð - alltaf! Jóna Bjarnadóttir Skoðun Fröken þjóðarmorð: Þér er ekki boðið! Linda Ósk Árnadóttir,Yousef Ingi Tamimi Skoðun Orðhengilsháttur og lygar Elín Erna Steinarsdóttir Skoðun Hvert er markmið fulltrúalýðræðis? Hlynur Orri Stefánsson,Vilhjálmur Árnason Skoðun Áform um að eyðileggja Ísland! Jóna Imsland Skoðun „Að skrifa söguna“ Var of mikið undir hjá kvennalandsliðinu? Viðar Halldórsson Skoðun
Reglulega birtast viðtöl við íbúa í miðborg Reykjavíkur sem kvarta undan ágangi ferðamanna. Þeir fá ekki svefnfrið vegna hópbifreiða og túrista með háværar ferðatöskur á hjólum. Bændur segja frá ferðamönnum sem kúka í hlaðvarpanum og gefa hestum brauð á víðavangi. Björgunarsveitir tala um aukna tíðni raunverulegra og ónauðsynlegra útkalla. Vegfarendur eru í bráðri lífshættu vegna kínverskra ökumanna á vegunum. Túristar baða sig ekki eins og innfæddir og menga sundlaugarnar. Smám saman hefur þjóðin áttað sig á því að ferðamenn eru engisprettufaraldur sem verður að stöðva. Nú hafa máttarstólpar samfélagsins tekið höndum saman til að losa okkur við óværuna. Þar ganga fremstir hóteleigendur og veitingamenn sem verðleggja túrismann svo hátt að mikill fjöldi hættir við að koma og hinir koma aldrei aftur. Fjögurra fermetra herbergi undir súð með aðgangi að salerni kostar viðlíka og gisting á fjögurra stjörnu hóteli í Evrópu. Sveittur hamborgari með frönskum kostar eins og þriggja rétta máltíð á meginlandinu. Ferð í Bláa lónið er verðlögð eins og óperusýning, bjórinn eins og eðalkampavín. Neikvæð fjölmiðlaumfjöllun brýnir almenning til dáða. Ósköp venjuleg amerísk hjón sögðu nýlega að almennir borgarar hefðu veist að þeim fyrir að ganga örna sinn á almannafæri. Með þessu samstillta átaki þjóðar og aðila í ferðaþjónustu tekst að losa landið við ferðamenn. Íslendingar geta unað glaðir í landinu sínu án þess að hafa útlendinga í litríkum vindjökkum og fjallgönguskóm fyrir augum. Nýbyggðu hótelunum má breyta í vistarverur fyrir hælisleitendur, fangelsi og meðferðarstofnanir. Nú verður aftur kátt í höllinni eins og hjá Þyrnirós heitinni.