Viðskipti innlent

Skeljungur hættir við kaup á 10-11

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Valgeir M. Baldursson, forstjóri Skeljungs.
Valgeir M. Baldursson, forstjóri Skeljungs. vísir/pjetur
Stjórn Skeljungs hefur ákveðið að slíta samningaviðræðum um kaup á öllu hlutafé í Basko. Kaupin voru háð ýmsum forsendum og fyrirvörum sem ekki gengu eftir, að sögn Valgeirs M. Baldurssonar, forstjóra Skeljungs.

„Það voru fjölmörg skilyrði og forsendur í samkomulaginu sem ekki gengu eftir að öllu leyti þannig að þetta varð niðurstaða okkar,” segir Valgeir í samtali við Vísi.

Samkvæmt tilkynningu sem Skeljungur sendi frá sér í maí síðastliðnum, þegar viðræður hófust, var kaupverð allt að 2,2 milljarðar króna. Basko fer meðal annars með rekstur 35 verslana 10-11 og samdi við Skeljung árið 2014 um rekstur verslana á helstu bensínstöðvum félagsins.

Valgeir segir enga breytingu verða á rekstri verslana Skeljungs. Samkomulag við Basko sé enn í gildi. „Við munum áfram vinna þétt saman samkvæmt þeim samningum sem við erum með milli okkar um rekstur þeirra á okkar verslunum, það breytist ekki neitt,” segir hann.

Aðspurður segir hann að vissulega hafi verið bundnar vonir við að samningar tækjust.

„Ég myndi ekki segja að þetta væru vonbrigði en við fórum auðvitað inn í málið af heilum hug. En stundum ganga mál eftir og stundum ekki og það þýðir ekkert að gráta það,“ segir Valgeir og bætir við að Skeljungur horfi alltaf fram á við og sé stöðugt með eitthvað nýtt í farvatninu.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.