Ragnheiður Benónísdóttir, landsliðsmiðherji í körfubolta, er gengin aftur í raðir Vals frá Skallagrími og leikur því aftur á Hlíðarenda í Domino´s-deild kvenna.
Ragnheiður söðlaði um fyrir síðustu leiktíð og gekk í raðir Skallagríms en með liðinu komst hún í úrslitaleik bikarsins og undanúrslit Domino´s-deildarinnar þar sem liðið tapaði fyrir Íslandsmeisturum Keflavíkur.
Hún spilaði að meðaltali 24,2 mínútur í leik síðustu leiktíð og skoraði að meðaltali 6,9 stig, tók 6,3 fráköst og átti 1,4 stoðsendingar í leik.
„Ég er glöð að vera kominn aftur heim á Hlíðarenda. Ég var bara fjórtán ára þegar ég kom fyrst í Val og hér hef ég spilað lengst af mínum körfuboltaferli,“ segir Ragnheiður um endurkomuna í fréttatilkynningu frá Val.
Valur hafnaði í fimmta sæti deildarinnar á síðustu leiktíð en það vann tólf leiki og tapaði 16. Það var fjórum stigum frá því að komast í úrslitakeppnina.
Ragnheiður aftur í Val
