Valdemar Johansen, lögmaður Steingríms, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að forstjórinn fyrrverandi hafi stefnt Fáfni sökum meintra vanefnda á greiðslu uppsagnarfrests sem hann hafi átt rétt á samkvæmt ráðningarsamningi. Samkvæmt svari Fáfnis Offshore við fyrirspurn blaðsins byggir gagnkrafa fyrirtækisins á því að Steingrímur hafi ekki skilið við félagið líkt og samningurinn hljóðaði upp á. Forstjórinn fyrrverandi hafi tekið með sér tölvu í eigu Fáfnis og brotið trúnaðarskyldu.
Fyrirtaka í máli Steingríms gegn Fáfni verður í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 22. júní. Þá verður liðið rúmt eitt og hálf ár síðan Steingrími, stofnanda og hluthafa í Fáfni Offshore, var sagt upp störfum. Steingrímur var fram að desember 2015 andlit fyrirtækisins út á við en Jóhannes Hauksson, stjórnarformaður Fáfnis, tók þá við framkvæmdastjórastarfinu um stutt skeið. Í kjölfarið hófust miklar deilur milli Steingríms og meirihlutaeigenda í Fáfni sem rekur sérútbúna olíuþjónustuskipið Polarsyssel.
