Viðskipti innlent

Bandarískur sjóður í hóp stærstu hluthafa Nýherja

Hörður Ægisson skrifar
Bréf Nýherja hafa hækkað í virði um 58 prósent frá áramótum.
Bréf Nýherja hafa hækkað í virði um 58 prósent frá áramótum. Vísir/Vilhelm
Fjárfestingarsjóður á vegum bandaríska eignastýringarfyrirtækisins Wellington Management er kominn í hóp stærstu hluthafa Nýherja með tæplega 1,8 prósenta hlut. Þetta er þriðja skráða fyrirtækið í Kauphöllinni þar sem sjóðir í stýringu Wellington Management komast á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa en fyrr á árinu eignuðust þeir talsverða eignarhluti í N1 og Símanum.

Sjóðurinn Wellington Trust Company National Association, sem eignaðist hlut sinn í Nýherja núna í maímánuði, er þannig tólfti stærsti hluthafi félagsins en miðað við núverandi gengi bréfa Nýherja er hluturinn metinn á um 265 milljónir. Markaðsvirði Nýherja er um 14,9 milljarðar – aðeins Skeljungur er með lægra markaðsvirði af skráðum félögum í Kauphöllinni – en gengi bréfa upplýsingatæknifyrirtækisins hefur hækkað um liðlega 58 prósent frá áramótum.

Tekjur Nýherja jukust um 20 prósent á fyrsta fjórðungi ársins og námu um fjórum milljörðum. Það er ekki síst góður árangur í hugbúnaðartengdri starfsemi Nýherja, meðal annars hjá dótturfélaginu Tempo, sem hefur dregið vagninn í tekjuvextinum. Á árinu 2016 námu tekjur Tempo um 13 milljónum dala og jukust um 40 prósent á milli ára. Á fyrsta fjórðungi var tekjuaukningin 46 prósent. Nýherji skoðar nú þann möguleika að selja meirihluta hlutafjár í Tempo.

Fjárfestingar erlendra sjóða í skráðum félögum námu 19 milljörðum fyrstu fjóra mánuði ársins borið saman við 11 milljarða á öllu árinu 2016. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×