Viðskipti innlent

Stærsti eigandi United Silicon farinn úr stjórn kísilversins

Haraldur Guðmundsson skrifar
Verksmiðja United Silicon var gangsett í nóvember. Fréttablaðið/Vilhelm
Verksmiðja United Silicon var gangsett í nóvember. Fréttablaðið/Vilhelm
Magnús Garðarsson, stærsti eigandi United Silicon í Helguvík, er hættur í stjórn kísilversins. Lögmaðurinn Auðun Helgason sem átti þar einnig sæti fyrir hönd Magnúsar og meðfjárfesta hans, er einnig farinn út. Samkvæmt heimildum Markaðarins er Sigrún Ragna Ólafsdóttir, fyrrverandi forstjóri VÍS, nú fulltrúi Magnúsar á stjórnarfundum ásamt Ingu Birnu Barkardóttur, starfsmanni Alvotech, en þær settust báðar í stjórn félagsins í janúar síðastliðnum.

Magnús Garðarsson, stærsti eigandi United Silicon
Samkvæmt tilkynningu United Silicon til hlutafélagaskrár ríkisskattstjóra fór Magnús úr stjórninni þann 6.?apríl. Jakob Bjarnason, starfsmaður LBI eignarhaldsfélags (gamla Landsbankans), fór þangað inn á sama tíma og Sigrún og Inga Birna. Heimildir Markaðarins herma að Jakob sé fulltrúi lífeyrissjóða sem fjárfestu í verksmiðjunni og að Arion banki, lánveitandi kísilversins, hafi gert kröfu um uppstokkun í stjórninni sem leiddi til þess að nýju stjórnarmennirnir þrír tóku þar sæti. 

Ekki náðist í Magnús Garðarsson við vinnslu fréttarinnar en hann var um tíma starfandi stjórnarmaður verkefnisins. Auðun Helgason er enn stjórnarformaður Geysis Green Capital sem á lóðina í Helguvík þar sem kísilverið er starfrækt. Doron Beeri Sanders er stjórnarformaður United Silicon. Rekstur verksmiðjunnar hefur gengið illa allt frá gangsetningu hennar í nóvember í fyrra og eins og komið hefur fram verið plagaður af mengunaróhöppum og í gær kom upp eldur í byggingunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×