Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - KR 81-74 | Suðurnesjamenn jöfnuðu metin

Stefán Árni Pálsson skrifar
Amin Stevens skoraði 34 stig og tók 16 fráköst í kvöld.
Amin Stevens skoraði 34 stig og tók 16 fráköst í kvöld. vísir/ernir
Keflavík jafnaði metin gegn KR í kvöld þegar liðið vann frábæran sigur, 81-74, í Sláturhúsinu suður með sjó. 

KR hafði lengi vel yfirhöndina en Keflavík vann sig í takt við leikinn og vann að lokum frábæran sigur eftir magnaðan leik í svaklegri stemningu í höllinni. 

Amin Stevens var gjörsamlega óstöðvandi í þessum leik og skoraði hann 34 stig og tók 16 fráköst. 

Af hverju vann Keflavík?

Keflavík er með Amin Stevens í liðinu og það er heldur betur meira en mörg önnur lið geta sagt. Þessi leikmaður dró vagninn og var gjörsamlega frábær í leiknum í kvöld. KR-ingar reyndu að spila sinn leik en varnarleikur Keflvíkinga í síðari hálfleiknum var frábær og skóp í raun þennan sigur.

Bestu menn vallarins?

Eitt svar: Amin Stevens var gjörsamlega óstöðvandi.  Hann var magnaður sóknarlega og tók hrikalega mörg fráköst og svo tók hann einnig gríðarlega mikið til sín. Hörður Axel stýrði þessu eins og herforingi.

Hvað gekk illa?

KR-ingar misstu hausinn í síðari hálfleikinn og sóknarlega voru þeir ekki nægilega góðir. Þeir hittu illa og fengu til að mynda fullt af opnum skotum í síðari hálfleiknum sem liðið nýtti ekki nægilega vel. Í raun fékk KR tækifæri til að loka þessum leik undir lokin.

Keflavík-KR 81-74 (26-21, 11-25, 23-19, 21-9)

Keflavík:
Amin Khalil Stevens 34/16 fráköst, Magnús Már Traustason 14/7 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 14/5 fráköst/8 stoðsendingar, Guðmundur Jónsson 9, Reggie Dupree 8, Ágúst Orrason 2, Gunnar Einarsson 0, Elvar Snær Guðjónsson 0, Davíð Páll Hermannsson 0, Arnór Sveinsson 0, Kristján Örn Rúnarsson 0, Arnór Ingi Ingvason 0.

KR: Jón Arnór Stefánsson 14/4 fráköst/5 stoðsendingar, Philip Alawoya 14/5 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 12/8 fráköst/5 stoðsendingar, Pavel Ermolinskij 9/4 fráköst, Kristófer Acox 9/5 fráköst, Darri Hilmarsson 9/5 fráköst, Sigurður Á. Þorvaldsson 6/5 fráköst, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 1, Vilhjálmur Kári Jensson 0, Arnór Hermannsson 0, Sigvaldi Eggertsson 0, Orri Hilmarsson 0.

Friðrik Ingi tók Amin aldrei útaf: Ég ætlaði vinna þennan leik„Þetta var mjög flottur sigur og strákarnir komu vel stemmdir og einbeitir til leiks, sérstaklega í síðari hálfleiknum,“ segir Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, eftir sigurinn.

„Við sýndum úr hverju við erum gerðir og hvað við getum gert þegar við leggjum okkur fram.“

Friðrik Ingi tók Amin Stevens aldrei af velli í kvöld og lék hann allar mínútur leiksins.

„Ég ætlaði að vinna þennan leik í kvöld og stundum þarf maður að taka áhættur. Maður stendur bara of fellur með þeim ákvörðunum. Það komu síðan leikhlé á góðum tíma sem hjálpuðu manni og hann þurfti ekki að hvílast.“

Hann segir að leikurinn í kvöld sýni að liðið sé heldur betur meðal þeirra bestu.

„Við sýndum frábæran karakter í kvöld og áttum þennan sigur sannarlega skilið.

Amin Stevens: Ég spila bara eins lengi og ég þarf„Við ræddum málin bara í hálfleik og ætluðum okkur koma mun sterkari til baka í þeim síðari,“ segir Amin Stevens, leikmaður Keflavíkur, eftir sigurinn.

Hann segir að leikur liðsins í þeim fyrri hafi verið slakur og menn orkulausir.

„Við höfðum mikla trú á okkur fyrir leikinn og það sást allan leikinn. Ef það hjálpar okkur að vinna leikinn þá spila ég fjörutíu mínútur.“

Stevens var mjög ánægður með stuðningsmenn Keflavíkur í kvöld.

„Þeir gefa okkur ákveðin kraft og þetta er eins og úrslitakeppnin á að vera.“

Hann segir að liðið verði að mæta í alla leikina eins og þeir mættu í síðari hálfleikinn í kvöld.

Jón Arnór: Ég skildi ekki þessa línu hjá dómurunum„Þetta var bara hörkubarátta allan leikinn eins og þetta á að vera í úrslitakeppninni,“ segir Jón Arnór Stefánsson, leikmaður KR, en hann gerði 14 stig, tók 4 fráköst og gaf fimm stoðsendingar í kvöld.

„Það var mikil harka, þetta var skemmtilegur leikur og allt fyrir áhorfendur. Við vorum bara ekki að gera það sem við ætluðum að gera í síðari hálfleiknum. Við stjórnuðum hraðanum mun betur í þeim fyrri.“

Hann segir að hlutirnir hafi einfaldlega fallið með Keflvíkingum í kvöld.

„Ég var ekki alveg að skilja línuna hjá dómurunum í kvöld. Þetta er vissulega úrslitakeppni en við fengum ekki að spila svona fast að mínu mati. Ég sá ekki þessa línu sem dómararnir settu í kvöld. Við viljum alveg hafa hörku en við fengum bara ekki að gera það sama og þeir,“ segir Jón að lokum lofar að KR-ingar mæta dýrvitlausir til leiks á föstudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×