Viðskipti innlent

Jamie Oliver vill halda því upprunalega á Hótel Borg

Benedikt Bóas skrifar
Jamie Oliver vill halda veggmyndunum og verja þær fyrir frekari skemmdum.
Jamie Oliver vill halda veggmyndunum og verja þær fyrir frekari skemmdum. vísir/anton brink/getty
„Verkið er mjög skemmt en ekki þannig að það sómir sér vel eitt og sér,“ segir Jón Haukur Baldvinsson einn af forsvarsmönnum Jamie´s Italian á Íslandi. Vonast er til að opna staðinn í júní og eru framkvæmdir á Hótel Borg í fullum gangi.

Staðir Jamie Oliver um allan heim eru með opið inn í eldhús enda lítur hann svo á að kokkurinn sé aðalstjarnan. Þegar framkvæmdir við þá opnun fóru af stað komu í ljós myndir sem málaðar eru beint á vegginn. „Skiljanlega þarf að vanda sig mikið við allt þetta ferli og það hefur tafið okkur örlítið. Minjavernd kemur hér vikulega og það eru margir ferlar í gangi. 

Minjavernd vissi að verkið leyndist þarna á bak við og við munum varðveita það með því að setja gler yfir. Goddur, prófessor við Listaháskóla Íslands, ætlar að koma og hjálpa okkur að reyna að finna hver gerði þetta verk með því að lesa í handbragðið. Hann þekkir söguna betur en flestir.

Jamie er hrifinn af sögufrægum húsum og er spenntur fyrir að halda þessu. Allt sem er upprunalegt á að halda sér. Það er það sem gerir staðina hans svo sérstaka þótt þeir heiti sama nafni.“

Meðal annars sem Jón og félagar stefna á að gera er að endurheimta gömlu viðarhurðina sem gestir gengu inn um þegar þeir komu á hótelið. Hurðin var tekin niður árið 2007 og álhurð sett í staðinn. Hurðin er nú á Árbæjarsafni en hún þótti tákn um nýja sveiflu í þjóðfélaginu.

„Stefnan er að reyna að fá hana aftur í miðbæinn. Þetta er falleg hurð sem ískrar vel í, brún og falleg,“ segir Jón. „Aðalaðgerðin við framkvæmdirnar er opnunin inn í eldhúsið. Annað fær að halda sér. Hurðirnar inni í salnum eru frá 1932 og verða að sjálfsögðu hér áfram. Maður heyrði að þegar Jamie´s Italian myndi koma þá óttuðust einhverjir að allt yrði rifið og tætt en hann vill frekar hafa hið upprunalega,“ segir Jón. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×