Körfubolti

Fimmti sigur Golden State í röð sem heldur forystu í vestrinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Steph Curry skoraði meira en bróðir sinn.
Steph Curry skoraði meira en bróðir sinn. vísir/getty
Golden State Warriors lagði Dallas Mavericks, 112-87, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en liðið er að rétta úr kútnum eftir að missa Kevin Durant í slæm meiðsli fyrir nokkrum vikum síðan.

Golden State er búið að vinna fimm leiki í röð og heldur þriggja sigra forskoti á San Antonio Spurs í baráttunni um efsta sætið í vestrinu þegar liðin eiga tíu til ellefu leiki eftir í deildarkeppninni.

Klay Thompson var stigahæstur hjá gestunum með 23 stig en hann hitti úr fimm af átta þriggja stiga skotum sínum. Steph Curry kom næstur með 17 stig en hann setti þrjá þrista í níu tilraunum.

Bróðir Curry, Seth, skoraði tíu stig fyrir Dallas en þeirra stigahæstur var að vanda Dirk Nowitzki sem skoraði 16 stig í leiknum.

San Antonio Spurs eltir Golden State eins og skugginn á toppnum í vestrinu en það á eftir einum leik meira en Warriors. Það vann sjö stiga útisigur á Minnesota Timberwolves í nótt, 100-93, þar sem Kawhi Leonard fór á kostum í seinni hálfleik.

Leonard skoraði 20 af 22 stigum sínum í seinni hálfleik og þar af mikilvægustu körfu leiksins þegar 54 sekúndur voru eftir en hún kom Spurs yfir á ögurstundu. LaMarcus Aldridge var stigahæstur Spurs-liðsins með 26 stig.

Úrslit næturinnar:

Toronto Raptors - Chicago Bulls 122-120

Brooklyn Nets - Detroit Pistons 98-96

Miami Heat - Phoenix Suns 112-97

New Orleans Pelicans - Memphis Grizzlies 95-82

Dallas Mavericks - Golden State Warriors 87-112

Minnesota Timberwolves - San Antonio Spurs 93-100

Portland Trail Blazers - Milwaukee Bucks 90-93

LA LAkers - LA Clipers 109-133

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×