Körfubolti

Varnarleikur meistaranna varð þeim að falli á heimavelli | Öll úrslit kvöldsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
LeBron James og félagar eru í hættu á að missa efsta sætið í Austurdeildinni þegar stutt er eftir af tímabilinu.
LeBron James og félagar eru í hættu á að missa efsta sætið í Austurdeildinni þegar stutt er eftir af tímabilinu. vísir/getty
Það voru þreytumerki á Cleveland Cavaliers í tólf stiga tapi á heimavelli gegn Washington Wizards í nótt en eftir að hafa horft upp á gestina setja 71 stig í fyrri hálfleik lauk leiknum með 127-115 sigri Washington.

Það vantaði ekki upp á stigaskorunina fyrir áhorfendur í nótt en staðan í hálfleik var 71-61, Washington í vil. Eftir að hafa náð forskotinu um miðbik fyrsta leikhluta litu þeir aldrei um hæl og lönduðu sigrinum.

LeBron James var tveimur fráköstum frá þrefaldri tvennu með 24 stig, ellefu fráköst og átta stoðsendingar en í liði gestanna átti John Wall stórleik með 37 stig, ellefu stoðsendingar, fjögur fráköst og tvo stolna bolta.

Cleveland heldur áfram efsta sæti Austurdeildarinnar en er nú aðeins með eins leikja forskot á Boston í baráttunni um heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.

Los Angeles Clippers og Toronto Raptors tryggðu þátttökurétt sinn í úrslitakeppninni með sigrum í nótt en í Los Angeles unnu Clippers-menn þrettán stiga sigur á Utah Jazz á meðan Raptors-menn innsigluðu miðann í úrslitakeppnina gegn Dallas á útivelli.

Þá heldur Portland áfram að gera atlögu að áttunda og síðasta sætinu í úrslitakeppninni en eftir sigur gegn Minnesota Timberwolves í nótt eru Portland-menn aðeins einum leik á eftir Denver Nuggets í baráttunni um síðasta sætið í úrslitakeppninni.

Úrslit gærkvöldsins:

Los Angeles Clippers 108-95 Utah Jazz

Cleveland Cavaliers 115-127 Washington Wizards

Dallas Mavericks 86-94 Toronto Raptors

San Antonio Spurs 106-98 New York Knicks

Portland Trailblazers 112-100 Minnesota Timberwolves

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×