Handbolti

Slóvenar fengu bronsið eftir ótrúlega endurkomu

Kristinn Páll Teitson skrifar
Slóvenar neituðu að gefast upp í kvöld.
Slóvenar neituðu að gefast upp í kvöld. Vísir/Getty
Slóvenar unnu bronsverðlaunin á Heimsmeistaramótinu í handbolta eftir hreint út sagt ótrúlegan leik gegn Króatíu í leiknum upp á bronsverðlaunin sem lauk rétt í þessu en leiknum lauk með 31-30 sigri Slóvena.

Slóvenar virtust þurfa að sætta sig við fjórða sætið þegar tíu mínútur voru til leiksloka og átta mörkum undir en ótrúlegur viðsnúningur þeirra tryggði þeim bronsverðlaunin.

Slóvenar áttu möguleika á því að vinna til verðlauna á stórmóti í aðeins annað skiptið í sögu handboltalandsiðsins en liðið vann til silfurverðlauna á EM í Slóveníu 2004.

Besti árangur liðsins á Heimsmeistaramótinu fram að þessu var fjórða sætið á Spáni 2013 þar sem liðið tapaði einmitt á móti Króötum í leiknum upp á bronsverðlaunin.

Liðin skiptust á mörkum fyrstu mínútur leiksins en Króatar tóku stjórn á leiknum snemma leiks. Gekk króatíski sóknarleikurinn vel og fengu þeir auðveld mörk sem skapaði um tíma sex marka forskot en Króatar leiddu 18-13 í hálfleik.

Króatar virtust ætla að gera út um leikinn í upphafi seinni hálfleiks þegar þeir náðu átta marka forskoti í stöðunni 24-18 en það virtist vekja Slóvenana til leiks.

Fimm slóvensk mörk í röð þegar þeir breyttu stöðunni úr 24-29 í 29-29 þýddu að það voru rafmagnaðar lokamínútur í Frakklandi.

Króatar náðu forskotinu á ný þegar þrjár mínútur voru til leiksloka en Slóvenar svöruðu með tveimur mörkum úr sitt hvoru horninu og náðu forskotinu á ný.

Var það í fyrsta skiptið sem Slóvenar voru yfir í leiknum frá því í stöðunni 3-2 en slóvenska vörnin setti einfaldlega í lás á síðustu ellefu mínútunum og unnu upp átta marka mun.

Króatar tóku langa sókn undir lok leiksins en slóvenska vörnin mætti þeim af fullum krafti og hleypti króatísku skyttunum aldrei í gott skot og fór það því svo að Slóvenar unnu nauman en ótrúlegan sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×