Lífið

Skrifar þegar börnin eru sofnuð

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
"Ég held að ef það væri ekki fyrir hrunið þá hefði ég ekki gefið mér jafn mikinn tíma til að skrifa bækur,“ segir Ragnar sem staldraði við og endurmat hlutina eftir hrun.
"Ég held að ef það væri ekki fyrir hrunið þá hefði ég ekki gefið mér jafn mikinn tíma til að skrifa bækur,“ segir Ragnar sem staldraði við og endurmat hlutina eftir hrun. Visir/Stefán
Ragnar Jónasson, rithöfundur og yfirlögfræðingur GAMMA, nýtir dagana vel. Hann gaf út sína níundu bók fyrir jólin. Fyrsta bók hans kom út árið 2009 og síðan þá hefur honum auðnast að gefa út eina bók fyrir hver jól. Hann kennir einnig við lagadeild Háskólans í Reykjavík og er faðir tveggja barna.

Fjölskyldu og ástvinum Ragnars finnst ekki skrýtið að hann hafi lagt fyrir sig ritstörf. Áhuginn hefur kraumað frá því í æsku.

Ragnar er fæddur og uppalinn í Kópavogi og Grafarvogi. Foreldrar hans eru Katrín Guðjónsdóttir, fyrrverandi læknaritari hjá Embætti landlæknis, og Jónas Ragnarsson, ritstjóri hjá Krabbameinsfélaginu.

„Ég hef margt frá foreldrum mínum. Pabbi er til dæmis mikill grúskari, skrifar og gefur út bækur. Föðurafi minn skrifaði alla sína ævi en gaf ekki út bók fyrr en hann var orðinn um áttatíu ára gamall,“ segir Ragnar frá.

„Pabbi er frá Siglufirði og mamma ættuð úr Landeyjum. Ég var mikið á Siglufirði í uppvextinum, við eigum hús þar í bænum og það eru sterkar tengingar,“ segir Ragnar en í nokkrum fyrri bóka hans er Siglufjörður sögusviðið. Fyrirmyndin að heimili aðalpersónu bókanna er hús ömmu og afa Ragnars í bænum. Breskur framleiðandi tryggði sér réttinn á þeim bókum og stefnir að framleiðslu sjónvarpsþátta sem að hluta til yrðu teknir upp hér á landi. Erlendir blaðamenn hafa flykkst á Siglufjörð á söguslóðirnar, glæpasögur Ragnars þóttu glæða íslensku glæpasöguna lífi á ný en oftar en einu sinni hefur því verið spáð að æðið sé að lognast út af.

„Afi og amma, Þ. Ragnar Jónasson og Guðrún Reykdal, voru mér mikil hvatning, líkt og foreldrar mínir. Amma og afi lásu lengi vel yfir öll mín handrit þegar ég þýddi sögur Agöthu Christie, og foreldrar mínir hafa lesið yfir allar bækur sem ég hef skrifað. Ég bý að ýmsu frá þeim,“ segir Ragnar.

Eins og margir í stétt rithöfunda las Ragnar mikið, bæði sem barn og unglingur. „Ég las og skrifaði sögur og ljóð. Bjó til blöð og seldi ættingjum mínum. Bókmenntir og ritstörf hafa alltaf verið áhugamál mitt. Ég las mikið Enid Blyton sem barn og síðar Agöthu Christie, fyrstu bókina ellefu ára. Ég fór á Landsbókasafnið með pabba sem ungur strákur og las þar allt eftir Agöthu sem var til á íslensku þegar ég hafði lesið allar bækur hennar sem ég fann á venjulegum bókasöfnum. Þegar ég lauk við að lesa allt sem til var á íslensku eftir Agöthu las ég bækurnar á ensku. Bækur hennar eldast vel með manni. Seinna meir, áður en ég fór sjálfur að skrifa bækur, þýddi ég fjórtán bækur hennar yfir á íslensku til þess að fá útrás fyrir sköpunarþörfina.“

Ragnar stundaði nám á stærðfræðibraut í Verzlunarskólanum og ákvað að stúdentsprófi loknu að leggja fyrir sig lögfræði. „Ég var enn að skrifa og skrifaði smásögur í Verzlunarskólanum. Dramatískar sögur sem enduðu illa og ég birti í skólablöðum og síðar í öðrum tímaritum. Ég hugsaði á þessum tíma um að læra íslensku, afi hvatti mig mikið til þess. Hann var mikill íslenskumaður. Pabbi hafði farið í lögfræði en ekki klárað hana á sínum tíma. Mér fannst lögfræðin að lokum mest heillandi, námið reyndist bæði krefjandi og áhugavert. Ég ætlaði mér ekki endilega að vinna sem lögmaður og flytja mál. Ég hugsaði með mér að námið gæti nýst í hvað sem er,“ segir Ragnar sem segist aðeins einu sinni hafa flutt mál fyrir dómi, ágreiningsmál um óðalsrétt í störfum sínum fyrir Kaupþing. Málið vannst og því var Ragnar sáttur við að láta þar við sitja í málflutningi í bili.

Ragnar réð sig til starfa í fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings eftir nám, þaðan fór hann á lögfræðisvið bankans og varð forstöðumaður. Hann þýddi bækur og hafði það áfram sem áhugamál að stússast i einhverju sem tengdist bókum og sköpun. Ritstörfin toguðu sífellt meira í hann. Hann sá auglýsingu frá bókaforlaginu Bjarti og Veröld, í henni kom fram að leitað væri að hinum íslenska Dan Brown. Þeim hinum sama væri lofað útgáfusamningi. Ragnar ákvað að láta slag standa. „Auglýsingin varð mér hvatning til að klára glæpasögu sem ég var með hugmynd að. Hún var nú alls ekki í stíl við Dan Brown en ég notaði keppnina sem tylliástæðu til þess að fá viðbrögð við handritinu.“

Handritið fékk góðar viðtökur. Enginn þótti vera Dan Brown Íslands en Ragnar og Lilja Sigurðardóttir fengu bæði útgáfusamninga hjá Bjarti og Veröld, í framhaldi af keppninni.

Stórhríð geisar uppi á heiðum á Austurlandi fyrir jólin 1987 þar sem hjón búa á einangruðum bóndabæ. Ókunnugur maður ber óvænt að dyrum á Þorláksmessu og segist hafa villst í fárviðrinu. Á þessa leið er söguþráður nýrrar bókar Ragnars.
En hvað varð til þess að hann ákvað að einbeita sér svo mjög að því að skrifa?

„Það breyttist margt í hruninu. Ég var að vinna í Kaupþingi og fylgdist með því þegar Geir bað Guð að blessa Ísland og var í bankanum daginn sem allt hrundi. Allt í einu voru ljósin slökkt, þetta var mikið áfall og óvenjulegur tími. Ég lærði mikið af þessum tíma. Það má segja að fyrir alla sem unnu við fjármál hafi hrunið reynst dýrmæt og dýrkeypt lexía. Ég vann um tíma sem forstöðumaður lögfræðiráðgjafar hjá Arion banka eftir hrun en ákvað svo að færa mig um set og vinna fyrir þrotabú gamla bankans. Það var áhugavert. Að skoða bankakerfið frá því sjónarhorni og vinna úr eignum sem höfðu næstum tapast. Ég sjálfur ákvað að gefa mér meiri tíma. Staldra aðeins við, endurmeta lífið. Ég held að ef það væri ekki fyrir hrunið þá hefði ég ekki gefið mér jafn mikinn tíma til að skrifa bækur. Mér finnst ég hafa fengið tækifæri til að hugsa lífið upp á nýtt. Hvar ég vildi hafa fókusinn í lífinu. Ég hafði aldrei séð það fyrir mér sem raunverulegan möguleika að vera bæði rithöfundur og í fullu starfi. Hugsaði alltaf með mér, ég geri þetta bara seinna.“

Ragnar tók við stöðu yfirlögfræðings hjá GAMMA árið 2015 og er jafnframt stundakennari við lagadeild Háskólans í Reykjavík þar sem hann kennir höfundarétt. Hann á tvö börn með eiginkonu sinni, Maríu Margréti Jóhannsdóttur, Kiru og Natalíu, en þær eru sjö og þriggja ára gamlar.

Þetta virðist krefjandi? „Já, ég geri þetta bara með því að anda rólega. Það er allt hægt. Ég skrifa bækurnar jafnt og þétt allt árið. Tek mér frí yfir hásumarið og í desember. Þetta bjargast alltaf. Ég skrifa þegar börnin eru sofnuð. Þá kúpla ég mig út og finnst það þægilegt. Reyndar hef ég þörf fyrir að skrifa og myndi gera þótt enginn læsi bækur mínar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×