Eiríkur Stefán Ásgeirsson kom inn í kvöldfréttir Stöðvar tvö og ræddi við Ólafíu og Kristinn bróður hennar. Það má sjá viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
Ólafía Þórunn verður fyrst íslenskra kylfinga meðal keppenda á LPGA mótaröðinni á næsta ári en hún er mótaröð bestu kylfinga heims í Bandaríkjunum. Margir tóku þátt í því að samgleðjast með Ólafíu og og fjölskyldu hennar í Grafarholtinu enda stelpan að vinna sögulegt afrek.
Björn Víglundsson formaður GR, Haukur Örn Birgisson forseti GSÍ, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur, Lárus Blöndal forseti ÍSÍ og Hólmfríður Einarsdóttir stjórnarmaður í Forskot afrekssjóð tóku öll til máls og sendu Ólafíu bestu kveðjur.
GR veitti Ólafíu eina milljón kr. í styrk fyrir afrekið en framundan er kostnaðarsamt keppnisár á stærsta golfsviði veraldar.
Ólafía hélt frábæra ræðu þar sem hún þakkaði GR-ingum sérstaklega fyrir að hafa alið sig upp sem kylfing, fjölskyldan fékk hjartnæmar kveðjur frá Ólafíu. Atvinnukylfingurinn sagði m.a. án stuðnings frá Forskoti afrekssjóði væri hún ekki þessum sporum, hún þakkaði einnig GSÍ, þjálfurum sínum og öllum öðrum sem hafa stutt við bakið á henni kærlega fyrir hjálpina.
Í ræðu Ólafíu kom margt áhugavert í fram og þar hvatt hún yngri kylfinga til þess að setja sér markmið, hafa trú á sér og reyna að bæta sig í litlum skrefum. Hún sagði að mesta reynslan sem hún hafi fengið í lífinu væri að gera mistök, vera óhrædd við að prófa sig áfram, og læra af reynslunni.
Fjölmargir yngri kylfingar voru mættir í Grafarholtið og góðu ráðin frá Ólafíu voru svo sannarlega hvetjandi fyrir þau. Ræða hennar var tilfinningarík og hafði mikil áhrif á hennar nánustu vini og fjölskyldu.
