Nýsköpunar fyrirtækið Wasabi Iceland hefur klárað um fimmtíu miljóna króna fjármögnun með einkafjárfestum til þess að koma af stað fyrstu wasabi ræktuninni á Íslandi. Áður hafði Arion banki fjárfest í fyrirtækinu í gegnum þátttöku þess í Startup Reykjavík.
Fyrirtækið hyggst rækta wasabi plöntur fyrir heimamarkað og útflutning. Wasabi plantan er fágæt og er afar verðmætt hráefni í matargerð. Fyrirtækið var stofnað árið 2015 af þeim Johan Sindra Hansen og Ragnari Atla Tómassyni en þeir eru útskrifaðir með BS próf úr vélaverkfræði og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.
Sjá einnig: Beint úr verkfræði í wasabi
Hugmyndin um að rækta wasabi á Íslandi kviknaði meðan þeir voru enn í námi og unnu þeir úttekt á slíkri ræktun sem lokaverkefni í verkfræðinni. Sumarið 2015 var Wasabi Iceland eitt af tíu nýsköpunarfyrirtækjum sem valið var inn í viðskiptahraðalinn Startup Reykjavík á vegum Icelandic Startups og Arion banka. Fyrirtækið hefur haft aðsetur í Húsi Sjávarklasans úti á Granda síðan í haust en tenging er milli sjávarútvegsins og wasabi jurtarinnar í gegnum sushi réttinn. Ræktun mun fara fram í gróðurhúsum Barra á Egilsstöðum.
Gert er ráð fyrir fyrstu uppskeru árið 2017 og mun fyrsta íslenska wasabiið verða á boðstólnum á Fiskmarkaðnum og Grillmarkaðnum, en samningur þess efnis var undirritaður á dögunum.
