„Meirihluti þess wasabi sem framreitt er á veitingahúsum á Íslandi er ekki alvöru. Það er búið til úr piparrót, sinnepi, matarlit og e-efnum. Sem sérlegir áhugamenn um sushi tökum við málin í okkar hendur,“ segir Ragnar Atli Tómasson, en hann er í slagtogi með þeim Johan Sindra Hansen og Kristófer Þór Magnússyni, sem saman mynda Wasabi Iceland.
„Ekta wasabi er búið til úr wasabi-jurtinni og finna þeir sem hana hafa smakkað finna muninn,“ útskýrir Ragnar. Segir hann hugmyndina hafa sprottið upp hjá þeim félögunum, sem fylgst hafa að í námi og útskrifuðust í vor með BS-gráður í verkfræði, í skólanum.
„Við skoðuðum þetta vel og sáum að þetta hefur ekki verið gert hérna heima, þrátt fyrir að Íslendingar séu sólgnir í sushi. Að sama skapi langaði okkur að nýta menntun okkar. Þetta varð því lendingin.“
Segja þeir piltar ekkert því til fyrirstöðu að hefja hérlendis ræktun á wasabi-jurtinni, þrátt fyrir að flestir hugsi eflaust um hlýtt loftslag Asíu þegar slíka ræktun ber á góma. „Loftslagið á Íslandi er alls ekki svo galið. Ræktunin mun fara fram í gróðurhúsi svo hana má framkvæma á fjölmörgum stöðum,“ útskýrir Ragnar og segir þremenningana í óðaönn að finna heppilegan stað til að hefja ræktun. „Við ætlum að búa svo um hnútana að Ísland verði þekkt fyrir sitt frábæra wasabi og koma okkur þannig rækilega á kortið.“
Startup Reykjavík stendur nú sem hæst, þar sem utanumhald fyrir unga frumkvöðla til að koma hugmyndum sínum í verk er i brennidepli. Um ræðir samstarf Arion banka og Klak innovit, en tíu verkefni eru valin ár hvert til að taka. Að loknum undirbúningi, fræðslu og framkvæmd eru verkefnin kynnt fjárfestum.
Beint úr verkfræði í wasabi

Tengdar fréttir

Allt nema sinna skólabók
Vilja gera fólki kleift að spila Fimbulfamb í sjónvarpinu þar sem snjallsíminn gegnir viðamiklu hlutverki. Draumurinn að búa til smáforrit.