Viðskipti innlent

Gera ekki athugasemdir við endurreisn sparisjóða

Samúel Karl Ólason skrifar
Landsbankinn tók yfir sparisjóði Bolungarvíkur, Svarfdæla og Þórshafnar.
Landsbankinn tók yfir sparisjóði Bolungarvíkur, Svarfdæla og Þórshafnar. Vísir/Pjetur
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að gera ekki athugasemdir við tilraunir sem íslensk stjórnvöld gerðu til að endurreisa Sparisjóð Norðurlands og þrjá forvera hans, Sparisjóði Bolungarvíkur, Svarfdæla og Þórshafnar. Þær aðgerðir sem farið var í skiluðu ekki þeim árangri sem að var stefnt.

Ekki náðist samkomulag við fjárfesta um að leggja sjóðnum til nýtt eigið fé og tók Landsbankinn sjóðinn yfir þann 7. september.

„Það er miður að endurskipulagning sparisjóða á Íslandi hefur tekið mun lengri tíma og skilað minni árangri en stjórnvöld gerðu ráð fyrir. Smærri bankar á íslenskum fjármálamarkaði geta haft jákvæð áhrif á samkeppni. Því hefur Eftirlitsstofnun EFTA sýnt viðleitni íslenskra stjórnvalda til að endurreisa sparisjóði skilning. Í ljósi þess að tilraunir til að endurreisa Sparisjóð Norðurlands hafa nú mistekist er mikilvægt að íslensk stjórnvöld leiti allra leiða til að viðhalda virkri samkeppni í innlendri bankastarfsemi,“ segir Sven Erik Svedman, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA í tilkynningu frá stofnuninni.

Upprunalega var ríkisaðstoðin veitt í júní og í desember 2010 var samþykkt tímabundið sem hluti af áætlun um að tryggja rekstur fimm smærri sparisjóða. Samkvæmt tilkynningunni var forsenda samþykkis ESA að lagðar yrðu fram áætlanir um endurskipulagningu sparisjóðanna.

„Skil áætlana þess efnis töfðust og frestuðust ítrekað. Að lokum kom í ljós að ekki tókst að endurskipuleggja Sparisjóð Norðurlands þannig að rekstur hans yrði lífvænlegur á ný.“

Vegna yfirtöku Landsbankans á Sparisjóði Norðurlands er óþarft að meta hvort ráðstafanir sem gripið var til hefðu tryggt rekstrarhæfi sparisjóðsins til langs tíma.

„Að öðru leyti hefur ESA lagt mat á ráðstafanirnar með hliðsjón af leiðbeinandi reglum stofnunarinnar um ríkisaðstoð við endurreisn fjármálafyrirtækja. Að mati ESA lögðu eigendur sparisjóðanna og lánardrottnar þeirra fram hæfilegt framlag til endurskipulagningarinnar. Samkeppnisröskun vegna aðstoðarinnar er lítil og áhrif á viðskipti milli aðildarríkja EES-samningsins óveruleg. Í ljósi þessa hefur ESA ákveðið að samþykkja ráðstafanirnar þótt í þeim felist ekki aðgerðir til að draga úr röskun á samkeppni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×