Það líður varla sú vika að ekki sé kvartað í fjölmiðlum undan lélegri aðstöðu við helstu ferðamannastaði. Það er samt ekki svo að ekkert horfi til bóta. Við Goðafoss er að verða breyting.
Það verður reyndar ekki sagt að vinnuvélarnar séu stórvirkar, þær eru litlar og nettar sem notaðar eru þessa dagana við lagningu göngustíga við austanverðan fossinn en þar er einnig búið að smíða útsýnispall. Sveitarfélagið Þingeyjarsveit stendur að verkinu.

Dagbjört segir ekki hjá því komist að nýta sumartímann til verksins en vonast jafnframt til að haustið verði drjúgt. Þingeyjarsveit hefur þegar fengið nærri 67 milljóna króna styrk úr framkvæmdasjóði ferðmannastaða en þarf að greiða 20 prósent á móti. Og þetta kostar skildinginn.
„Þetta er hátt í hundrað milljónir í heildina. Við erum nú þegar búin að framkvæma fyrir einhverjar þrjátíu milljónir,” segir Dagbjört.

„Þetta er aðalstaðurinn, - aðalstoppistaðurinn í Þingeyjarsveit.”
Goðafoss og umhverfi hans eru jafnframt ein helsta náttúruperla Norðurlands og því þarf að vanda til verka.
„Við leggjum mjög mikla áherslu á að gera þetta vel. Við höfum fengið landslagsarkitekta til þess að vinna þetta með okkur.
Og þetta er auðvitað viðkvæmt. Þarna er hraun og lyng og svo er verið að útbúa þarna stíga og þá verða sár eftir það.
Þannig að við erum að reyna að setja lyngþökur og hraun og annað þannig að þetta verði bara sem náttúrulegast. En auðvitað eru alltaf ákveðin ummerki eftir svona framkvæmdir,” segir sveitarstjóri Þingeyjarsveitar.