Viðskipti innlent

Ekki komin í geggjun fyrirhrunsáranna

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Alls konar fólk mælir göturnar í atvinnuleysi, þótt dregið hafi úr því hröðum skrefum síðustu ár. Núna er hlutfall háskólamenntaðra meðal atvinnulausra hærra en fyrir tíu árum.
Alls konar fólk mælir göturnar í atvinnuleysi, þótt dregið hafi úr því hröðum skrefum síðustu ár. Núna er hlutfall háskólamenntaðra meðal atvinnulausra hærra en fyrir tíu árum. Fréttablaðið/Daníel
 Þótt atvinnuleysi hér sé lítið á alþjóðlegan mælikvarða er sú ekki raunin á íslenskan mælikvarða. Gylfi Magnússon, hagfræðingur og dósent við viðskiptafræðideild Háskólans, bendir á að þótt mjög hafi dregið úr atvinnuleysi hér síðustu ár, þá sé talan ekkert mjög lág í sögulegu samhengi.

Tölurnar gefi því ekki tilefni til að ætla að vinnumarkaðurinn sé að ofhitna. „En hann er klárlega ekki með þennan slaka sem var 2009 og 2010. Hann er nánast horfinn, þó að við séum ekki komin í sömu geggjun og árin 2004 til 2007,“ segir Gylfi.

Í nýju efnahagsyfirliti VR kemur fram að samkvæmt tölum Hagstofunnar hafi atvinnuleysi í nóvember síðastliðnum verið 3,5 prósent. Þá kemur fram að tölurnar sýni þróun í átt til aukins hlutfallsstarfandi á vinnumarkaði. Þær tölur hafi ekki verið hærri frá hruni og séu nú þær sömu og í mars 2005. „Þessi leitni í hlutfallsstarfandi er gott merki um að enn sé mikill kraftur í vinnumarkaðinum þrátt fyrir strembnar kjaraviðræður á árinu sem var að líða,“ segir í samantekt VR.

Í efnahagsyfirlitinu kemur einnig fram að á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2005 hafi atvinnulausir með háskólamenntun verið 10,6 prósent af heildarfjölda atvinnulausra, en á sama tíma í fyrra hafi það hlutfall verið 25,2 prósent. 

Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands
„Á þessum tíma hefur fjöldi atvinnulausra með háskólamenntun aukist um 272 prósent en aðeins um níu prósent hjá þeim sem hafa lokið grunnskólanámi eða öðru sambærilegu,“ segir þar.

Gylfi bendir á að á þessum tíu árum hafi hlutfall Íslendinga með háskólapróf hækkað mjög mikið. „Þannig að hlutfallslegt atvinnuleysi þeirra sem eru með háskólapróf hefur ekki vaxið jafn mikið og þessar hráu tölur gefa til kynna. Það eru einfaldlega fleiri með háskólapróf,“ segir hann. Tölurnar segi þó sína sögu um framboð og eftirspurn á vinnumarkaði.

„Það kannski gengur ekki nógu vel að byggja upp atvinnugreinar sem reiða sig á fólk með háskólapróf, það er að segja í sumum greinum,“ bætir Gylfi við og bendir á að landlægur skortur sé á fólki með ákveðna tegund háskólaprófa, svo sem í verkfræði og tölvufræði, auk skorts á heilbrigðisstarfsfólki sem sé háskólamenntað. 

„Þannig að það eru einhverjir aðrir hópar háskólamanna sem eru atvinnulausir. Augljóst er að það er einhver tegund menntunar sem tryggir fólki ekki vinnu við núverandi aðstæður.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×