Viðskipti innlent

Boli Doppelbock hreppti gullverðlaun í Belgíu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Boli Doppelbock.
Boli Doppelbock. Ölgerðin
Boli Doppelbock vann í gær gullverðlaun í bjórkeppninni Brussels Beer challenge.  Bjórinn hlaut verðlaunin í flokki dökkra bock bjóra en Boli Doppelbock er jólabjór frá Ölgerðinni.

„Að vinna verðlaun hér í Belgíu, stærsta bjórlandi í heimi, það er gríðarlegur heiður fyrir brugghús“ er haft eftir Luc De Raedemaeker, sem er í forsvari fyrir keppnina, á vef Reuters.

Undir það tekur Guðmundur Mar Magnússon, bruggmeistari Ölgerðarinnar.

Guðmundur Mar Magnússon, bruggmeistari Ölgerðarinnar
„Þetta er gríðarlegur heiður og mikil viðurkenning fyrir okkur. Að vinna gull í sjálfri höfuðborg bjórsins er sigur af stærri gerðinni en Boli Doppelbock er bjór sem við erum afskaplega stolt af og það er algjörlega frábært að fá svona viðurkenningu.“

Brussel Beer challenge-keppnin hefur aldrei verið jafn umfangsmikil og í ár en á vef Reuters segir að í keppninni í ár hafi 80 dómarar frá 27 löndum dæmt rúmlega 1.250 bjóra.

Að sögn Guðmundar eru verðlaunin síðast en ekki síst mikilvæg hvatning fyrir íslenska bruggara. „Íslenskum bjórum hefur verið gríðarlega vel tekið erlendis þrátt fyrir stutta sögu bjórgerðar. Okkar markmið hjá Ölgerðinni er auðvitað alltaf að gera sem bestan bjór en að fá svona staðfestingu er algjörlega ómetanlegt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×