Skoðun

Sykursýki er vaxandi vandamál um allan heim - hvað er að gerast á Íslandi?

Rafn Benediktsson skrifar
Sykursýki er sjúkdómur sem herjar á fólk á öllum aldri. Sjúkdómurinn veldur fyrst og fremst óskunda vegna hækkunar á gildi blóðsykurs í líkamanum, en það ástand skemmir markvisst ýmis líffæri okkar sé ekkert að gert. Þó það séu til mörg afbrigði af sykursýki, má einfalda málið og segja að 90% einstaklinga hafi tegund 2 sykursýki en um 10% tegund 1. Flestir tengja tegund 1 við börn og tegund 2 við fullorðna þó báðar tegundirnar geti greinst á hvaða aldri sem er.

Umhverfisþættir eins og lífsstíll skipta höfuðmáli þegar kemur að því að ná tökum á sjúkdómnum en hvað nákvæmlega veldur sykursýki er ekki ljóst. Erfðir skipta máli í öllum sjúkdómum og gildir það einnig um sykursýki. Erfðafræði sykursýki af tegund 2 hefur þó reynst sérstaklega flókin og að minnsta kosti 65 erfðamörk hafa fundist sem tengjast sjúkdómnum. Nær öll þeirra snúast um starfsemi briskirtilsins sem eru þá rök fyrir þeirri skoðun að lífsstíll okkar sé ekki eini lykillinn að gátunni um orsök sykursýki. Þó virðist offitufaraldurinn og lífsstíll okkar um þessar mundir vera það sem drífur þá miklu aukningu á tíðni sykursýki sem hefur orðið vart erlendis. Er nú talið að allt að 10% fullorðinna Evrópubúa hafi sykursýki og í Bandaríkjunum er allt að helmingur fullorðinna talinn hafa sykursýki eða forstig hennar.

Að greinast með sykursýki hefur veruleg neikvæð áhrif á almenna líðan og heilsufar einstaklinga en ber einnig með sér ótímabæran dauða. Heilsutengdur kostnaður einstaklinga eykst einnig verulega við það að greinast með sykursýki og hið sama gildir um kostnað þjóðfélagsins. Í Bandaríkjunum er kostnaðurinn við fótamein í sykursýki, einn og sér, meiri en kostnaðurinn sem tengist 5 dýrustu krabbameinunum. Flest heilbrigðiskerfi heimsins hafa af þessu miklar áhyggjur - mat sumra er að verði ekkert að gert muni þeirra heilbrigðiskerfi verða gjaldþrota á næstu árum.

En hvað geta heilbrigðisyfirvöld gert? Viðbrögðin erlendis hafa meðal annars falist í því að reyna að átta sig á vandanum með nákvæmri skráningu tilfella í gagnagrunna. Það er auðvitað forsenda þess að geta gert einhverjar áætlanir um þörf fyrir fjármagn sem og skynsamlega útdeilingu þess. Einnig er víðast í gangi markviss skimun hvað varðar fylgikvilla því sem betur fer má koma í veg fyrir lokastig fylgikvillana með skynsamlegri meðferð. Sú meðferð þarf að hefjast snemma í ferlinu og felur meðal annars í sér eflingu einstaklinganna sem um ræðir. Þar skiptir sköpum að auðvelda aðgengi að þekktum almennum lausnum sem snúast um lífsstíl en einnig að beita nýjum aðferðum sem byggja á hugviti og tækni. Verulegar framfarir hafa orðið í þessum efnum í hinum vestræna heimi og til að ná árangri er það ekki endilega besta lausnin að ávísa nýjum dýrum lyfjum.

En hver er staðan hér? Því miður er það eitt stórt spurningamerki eins og staðan er núna. Það er ekki til gagnagrunnur um sykursýki á Íslandi. Tölurnar sem við höfum að byggja á eru 10 ára gamlar. Þá var ljóst að tíðni sykursýki var að aukast hér eins og í öðrum löndum. Við vissum einnig þá að Íslendingar eru ekki ónæmir fyrir fylgikvillum sjúkdómsins - tíðni margra þeirra var áþekk hér og erlendis. Við sem störfum við að aðstoða fólk með sykursýki höfum ýmsar vísbendingar um að vandinn sé að aukast. Það á sérstaklega við um fylgikvilla eins og fótamein og aflimanir. Við teljum raunar að það þurfi nýja hugsun í því hvernig við Íslendingar nálgumst vandann og verðum við þar að horfa til nágrannaþjóða okkar sem á undanförnum árum hafa aukið formlega samvinnu heimilislækna og annarra sérfræðinga en einnig stigið stór skref inn í framtíðina með nýtingu á tækni og hugviti. Við erum þeim þar langt að baki.

Í dag, 14. nóvember er alþjóðlegur dagur sykursýkinnar sem að þessu sinni er helgaður skimun vegna sjónukvilla. Því miður virðist vanta mikið uppá að tryggt sé að allir einstaklingar sem eru með sykursýki á Íslandi hafi fengið augnskimun. Um það vitnar úttekt á sjúkraskrárkerfi Landspítalans sem staðfestir að þrátt fyrir ráðleggingar um að láta fylgjst með augunum erum við einungis með staðfestingu á að það hafi verið gert hjá minnihluta okkar skjólstæðinga.

Aðalatriðið núna er að kortleggja vandamálið. Samhliða því þarf að skipuleggja kerfi á landsvísu sem tryggir að einstaklingarnir fái þá þjónustu sem þeir eiga skilið. Það þýðir aðgangur að kerfisbundinni skimun eftir fylgikvillum og aðgangur að nýtísku meðferðarúrræðum sem mörg hver eru ekki enn í boði hér landi. Það mun kosta beinharða peninga núna en mun gagnast hverjum og einum sem og spara þjóðfélaginu í heild mikla fjármuni á næstu áratugum.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×