Fastir pennar

Þing gegn þjóð

Þorvaldur Gylfason skrifar
Hörð rimma var háð um stjórnarskrána sem Alþingi bar undir þjóðar­atkvæði 1944. Stjórnarskráin frá 1944 er stundum kölluð lýðveldisstjórnarskrá. Það er þó rangnefni þar eð textinn var í reyndinni ekki annað en bráðabirgðaskjal með lágmarksbreytingum á gömlu stjórnarskránni frá 1874. Fulltrúar allra flokka á Alþingi strengdu þess heit að skila af sér nýrri stjórnarskrá eigi síðar en vorið 1946 eins og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, lýsir vel í ritgerð sinni Tjaldað til einnar nætur. Það heit efndu flokkarnir ekki fyrr en þeir fólu Stjórnlaga­ráði að vinna verkið með liðsinni almennings sem leiddi verkið fram til sigurs í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012.

Allir þingflokkar voru á einu máli um nauðsyn þess að lýðveldisstofnuninni 1944 fylgdi ný stjórnarskrá og lögðu því kapp á að koma henni fram. Þeir dreifðu þjóðaratkvæðagreiðslunni um hana á marga daga, sendu fulltrúa sína heim til fólks með kjörseðla ef það átti ekki heimangengt og sendu hvatningarbréf í pósti inn á hvert heimili. Þessi samstaða flokkanna um málið er söguleg í ljósi þess að ástand Alþingis var þá með allra versta móti vegna sundurþykkis og úlfúðar. Enda hafði Sveinn Björnsson ríkisstjóri talið sig nauðbeygðan til að skipa utanþingsstjórn 1942 þar eð þingflokkarnir höfðu reynzt ófærir um að mynda hvort heldur meirihlutastjórn eða minnihlutastjórn.

Við þessar kringumstæður tókst Sveini Björnssyni að fá forustumenn flokkanna til að fallast á þjóðkjörinn forseta frekar en þingkjörinn eins og flokkarnir hefðu heldur kosið til að hafa alla þræði valdsins í hendi sér. En Sveinn hafði betur, studdur fyrstu vísindalegu skoðanakönnuninni sem gerð var í landinu. Niðurstöður hennar voru birtar í tímaritinu Helgafelli 1943 sem þeir ritstýrðu skáldin Magnús Ásgeirsson og Tómas Guðmundsson með miklum brag.

Niðurstöðurnar sýndu að 70% kjósenda vildu heldur þjóðkjörinn forseta en þingkjörinn. Þarna var lagður grunnurinn að því forsetaþingræði sem Íslendingar hafa æ síðan búið við, þ.e. þingræði þar sem þjóðkjörinn forseti hefur heimild skv. stjórnarskrá til að vísa lögum í þjóðaratkvæði, leggja fram frumvörp á Alþingi, skipa ráðherra ef á þarf að halda o.fl. Æ síðan hafa stjórnmálaflokkarnir reynt að vinda ofan af óförum sínum í aðdraganda lýðveldisstofnunarinnar 1944. Tregða Alþingis til að staðfesta nýju stjórnarskrána sem 2/3 hlutar kjósenda lýstu sig fylgjandi 2012 er angi á þessum meiði.

Ástand Alþingis

Sigurður Nordal prófessor lýsir ástandi Alþingis í ritgerð sinni í bókinni Ástandið í sjálfstæðismálinu 1943. Þar segir hann m.a.:

„Alþingi getur ekki myndað þingræðisstjórn. Alþingi ræður ekki við verðbólguna. Alþingi getur ekki komið á réttlátri skiptingu styrjaldargróðans. Alþingi finnur engin ráð til þess að halda óhófi, ólifnaði og spillingu í skefjum. Svo mætti lengi halda áfram, ef allt skyldi talið, sem almenningur færir fram til vantrausts á þessa æðstu stofnun þjóðar, sem er í vanda stödd. Er það leiðin til þess að bjarga sóma þessa alþingis, ef það hrapar að stofnun lýðveldis, klæðist ljónshúð frægustu foringja Íslendinga frá liðnum tímum, sigrar Danskinn og getur sýnt þjóðinni mátt sinn og megin gagnvart þessum ægilega óvini: „Lá hann ekki, lasm“?! En væri ekki betur við eigandi að sú Íslandsglíma færi ekki fram 17. júní, heldur á afmælisdegi Adolfs Hitlers, sem vér eigum hvort sem er allar „vanefndir“ Dana að þakka?“

Sigurður Nordal var í hópi þeirra menntamanna og annarra sem töldu rétt að fresta lýðveldisstofnuninni fram yfir styrjaldarlok frekar en að segja Ísland úr konungssambandi við hernumda Danmörku sem gat enga björg sér veitt. Þess vegna segir hann um þingið: „ef það hrapar að stofnun lýðveldis“. Lýsing hans á Íslandsglímunni á vel við um ýmsa þá sem barið hafa sér á brjóst með mestri háreysti undangengin misseri.

Ef bilið heldur áfram að breikka

Sigurður Nordal heldur áfram eins og hann sé að ávarpa Íslendinga nú:

„Hvað verður um þingræði og þjóðræði á Íslandi, ef gjáin milli þings og þjóðar, bilið milli sanninda og velsæmis annars vegar og málrófs og hátternis sumra stjórnmálaleiðtoganna hins vegar, heldur áfram að breikka sem gerzt hefur á síðari árum – og lýsir sér varla betur í neinu en skilningi þess, í hverju raunverulegasta sjálfstæði þjóðarinnar sé fólgið? Hverjum Íslendingi, sem vill horfa út yfir þægindi líðandi stundar, hvar í flokki sem hann stendur, er skylt að gæta að hættunni, sem af þessu stafar, finna til síns hluta af ábyrgðinni. Hvorki má láta óp, hótanir né smjaður aftra sér frá að hugsa sjálfur og skýra að því búnu frá skoðunum sínum, að minnsta kosti fulltrúum sínum á Alþingi, svo að þeir gleymi því ekki, að þeir eru kosnir af mælandi mönnum, en ekki jarmandi sauðum.“

Lýðræðið í landinu hangir nú á þunnum þræði, enn frekar jafnvel en sums staðar í nálægum löndum. Bandaríkin hljóta ekki lengur ágætiseinkunn hjá Freedom House fyrir frelsi og lýðræði. Ofurvald peninga á vettvangi stjórnmálanna þar vestra ásamt hirðuleysi stjórnmálastéttarinnar á mikinn þátt í afturförinni. Ísland sýnist vera á sömu leið nema þingið eða þjóðin grípi í taumana.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.


×