Viðskipti innlent

Hreiðar Már og Guðný neita sök í nýju Kaupþingsmáli

Þorgeir Helgason skrifar
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings. Vísir/GVA
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, neituðu bæði sök þegar mál héraðssaksóknara gegn þeim var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Hreiðar og Guðný eru ákærð fyrir umboðs- og innherjasvik.

Í ákærunni kemur fram að Hreiðar hafi, í krafti stöðu sinnar innan bankans, látið Kaupþing veita einkahlutafélagi sínu, Hreiðari Má Sigurðssyni ehf., tæplega 575 milljóna króna eingreiðslulán án þess að fyrir lægi samþykki stjórnar eða fullnægjandi trygging. Þann 6. ágúst 2008 nýtti Hreiðar kauprétt sinn og keypti hlutabréf í Kaupþingi fyrir 246 milljónir króna. Seinna sama dag seldi hann einkahlutafélagi sínu sömu bréf fyrir 572 milljónir króna, sem hann fjármagnaði með láninu. Hreiðar færði mismuninn, 324 milljónir, tveimur vikum seinna inn á eigin bankareikning.

Félag Hreiðars var tekið til gjaldþrotaskipta 13. apríl 2011. Upp í kröfu bankans vegna lánsins fengust um það bil 1,5 milljónir króna. Hreiðari er gefið að sök í ákærunni að hafa á þessum tíma búið yfir innherjaupplýsingum um að skráð markaðsverð hlutabréfa í Kaupþingi hafi gefið ranga mynd af verðmæti þeirra vegna stórfelldrar markaðsmisnotkunar með hlutabréf í bankanum frá nóvember árið 2007 sem Hreiðar tók sjálfur þátt í.

Guðný Arna er ákærð fyrir hlutdeild í meintum umboðssvikum Hreiðars. Hún er sökuð um að hafa veitt liðsinni í verki við að koma þeim fram, einkum með fyrirmælum og samskiptum við lægra setta starfsmenn um uppgjör og frágang vegna verðbréfaviðskipta og fyrir lánveitingar til félags Hreiðars. Hún hafi vitað eða ekki getað dulist að tryggingar fyrir lánveitingu væru ófullnægjandi og að lánveitingin til einkahlutafélagsins væri óheimil og til þess fallin að valda bankanum verulegri fjártjónshættu.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×