Lífið

Neistinn má ekki slokkna á þingi

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
vísir/anton brink
Einar K. Guðfinnsson býður Jóhönnu Guðmundsdóttur til sætis á skrifstofu sinni á Alþingi. Þau eru að hittast í fyrsta skipti. Jóhanna starfar sem framkvæmdastjóri hjá HR og er að hefja afskipti af stjórnmálum af alvöru í fyrsta sinn á ævinni, þó hún hafi tekið virkan þátt í starfi R-listans á sínum tíma og verið í stjórn Ungra jafnaðarmanna fyrir margt löngu.

Einar, hvaða ráð myndir þú gefa Jóhönnu sem er að stíga sín fyrstu skref í stjórnmálum?



Einar: „Stjórnmálin eru fyrst og fremst hugsjónir, ástríða og löngun til þess að láta gott af sér leiða, ná einhverju fram. Það gerist ekki bara með því að vera áhugasamur um verkefnið. Þingmennskan er ekki síst mjög mikil vinna. en ef maður leggur sig fram og vinnur af kappi þá eru möguleikar á því að eitthvað af hugsjónum manns rætist.“

Jóhanna: „Ég ímynda mér að störf stjórnmálamanna séu eins og störf flestra annarra, að því leyti að fólk nær ekki árangri nema það leggi sig allt fram. Ég er vön því, enda hef ég aldrei verið í vinnu þar sem maður þarf ekki að leggja mikið á sig til að ná árangri. Það sem er frábrugðið er að á þessum vinnustað fara rökræður og ákvarðanataka fram fyrir opnum tjöldum og oft í fjölmiðlum. Það sem sést einna helst út á við eru átökin og síður vinnan sem að hér er unnin frá degi til dags, til dæmis í nefndum þingsins. Ég held þó að Alþingi hljóti að vera afskaplega lifandi og skemmtilegur vinnustaður og þeir sem þar vinna njóta þeirra forréttinda að geta mótað samfélagið út frá sinni réttlætishugsun.“

Einar, breytist það ekki þegar þið farið upp í matsal? Eruð þið þar ekki bara að sprella?



Einar: „Jú, vissulega verða til vináttubönd þvert á flokka. Og það er auðvitað mjög ánægjulegt. En stjórnmálin eru vitaskuld átök því við erum með ólíkar skoðanir en það þarf ekki að útiloka vináttu við fólk með aðrar skoðanir. Niðurnjörvuð umræða sem leyfir ekki pólitískum átökum að brjótast út er ekki eitthvað sem maður myndi vilja sjá. Hins vegar þarf að gæta hófs – ef átökin ganga of langt og fara úr böndunum kemur það líka niður á öðrum sem vilja koma á framfæri sínum málum.“

Jóhanna: „Er þitt starf líkt því að vera framkvæmdastjóri fyrirtækis, eða verkstjóri?“

Einar: „Ég hugsa að ég vilji frekar vera kallaður verkstjóri. Ég er stundum spurður að því hvort ég sjái ekki til þess að fólk mæti í vinnuna. Þá minni ég á að vinnuveitandi alþingis­manns er ekki forseti alþingis. Kjósendurnir eru vinnuveitendurnir.“

Það er sum sé enginn tekinn rækilega á teppið hér inni á skrifstofu forseta alþingis?

Einar: „Nei, en eðlilega er því ekki tekið vel ef fólk mætir illa til starfa sinna á Alþingi. sérstaklega á þingfundi. En þá er þess að gæta líka að þingmannsstarfið er fjölbreytt og mikil vinna fer fram í nefndum þingsins, við undirbúning og vegna margs konar skuldbindinga utan þings í kjördæmum og erlendum samskiptum.“

Jóhanna: „Þá er þingmaður ekki í salnum og fólk kann ekki að meta það.“

Einar: „Já. Ég held hef haldið því fram að menn komist bara upp með það að sinna verkefnum sínum slælega í smá tíma. En það kemst jafnan fljótlega upp um strákinn Tuma. Kjósendur sjá í gegnum það. Við vinnum nefnilega fyrir opnum tjöldum.“

Jóhanna: „Ég sjálf hef alltaf þurft að vinna svolítið mikið. Ég gúglaði þig og þú hefur starfað sem útgerðarstjóri í Bolungarvík. Er þetta nokkuð öðruvísi en slík störf?“

Einar: „Þingmennskan er í mínum huga alveg einstætt starf fyrir margra hluta sakir. En það breytir því ekki að í þessu starfi eins og öðrum nær fólk árangri með því að leggja mjög hart að sér. Íslendingar vinna almennt mikið og leggja hart að sér. Það held ég að eigi við um marga þingmenn líka.“

Jóhanna: „Ef maður er alinn upp í sjávarplássi og sveit þá er maður vanur því að ganga í verkin. Ef þarf að moka flórinn, þá gerir maður það bara.“

vísir/anton brink
Jóhanna er fædd og alin upp fyrstu árin að Ytri-Rangá í Skaftártungum þar sem nýverið fundust bein og sverð frá landnámsöld.

Hvað haldið þið um þennan merka fund? Hver átti sverðið og hverra bein eru þetta?



Jóhanna: „Því er haldið fram að sverðið hafi mögulega tilheyrt Hróari Tungugoða og ég sé enga ástæðu til að rengja það. Kannski ég hafi leikið mér að þessum lærlegg úr kumlinu þegar ég var lítil, þá notuðum við bein úr dýrum til að líkja eftir vinnunni í sveitinni, það væri nú ekki ónýtt!“

Einar: „Ég ætla að leyfa mér að viðhalda goðsögninni, af því að hún verður ekki afsönnuð. Þetta er auðvitað goðinn.“

Einar, er ekki kominn tími til þess að Alþingi verði fjölskylduvænni vinnustaður?



Einar: „Jú, við verðum að gera það eins og hægt er og ég fullyrði að það hefur breyst í rétta átt á mínum þingmannsferli. Sem dæmi get ég nefnt að mér hefði aldrei dottið í hug að leggja fram þá afsökun, að sitja ekki þingfund, nefndafund eða mæta ekki á viðburði í kjördæmi vegna fjölskylduaðstæðna. Í dag er þetta réttilega hins vegar talið eðlilegt en þegar ég horfi til baka þá sér ég auðvitað að börnin mín guldu fyrir þetta viðhorf mitt forðum.

En mér finnst þó þrátt fyrir breytt viðhorf ekki nægjanlegur skilningur á því í samfélaginu þegar við reynum að sveigja skipulag þingsins að þörfum barnafjölskyldna. Ég nefni lítið dæmi. Við vorum ekki með þingfundi á sama tíma og skólafríin en höfðum þá á degi sem ella hefðu ekki verið þingfundir Fyrir þetta vorum við sproksett og jafnvel í einhverjum tilvikum innan þingsins. En þó við viljum öll gera þingmannsstarfið fjölskylduvænna þá vil ég undirstrika að það er ekki og verður aldrei 9-5 starf þar sem allt er fyrirsjáanlegt. Svo eigum við vitaskuld að vera með fólki í okkar kjördæmum í gleði og sorg, taka þátt í fundum og starfi utan þingsins. Og svo má auðvitað ekki gleyma því að margir þingmenn búa hreint ekki í Reykjavík og eru fjarri fjölskyldum sínum langtímum saman fyrir vikið. En ég tek eftir því að þeir þingmenn kveinka sér aldrei undan þeirri aðstöðu.

Við sem erum þingmenn verðum að sætta okkur við sérstöðu þingmannsstarfsins. Frægasti frasinn sem mér er eignaður á mínu heimili, þegar ég get ekki gert eitthvað með fjölskyldunni er samkvæmt konunni minni og börnum: „Sigrún, þetta er vinnan mín.“ En þingmennskan er þrátt fyrir þetta alls ekki kvöð. Þvert á móti. Og svo koma tímar þar sem þingmenn ráða sér miklu meira sjálfir en gengur og gerist í öðrum störfum.

En vegna þess að talað er um skólafrí þá er málið ekki svo einfalt fyrir Jóhönnu sem fer alla leið til Suður-Afríku til að vera með börnum manns síns í skólafríi.

Jóhanna: „Maðurinn minn er frá Suður-Afríku og það er skólafrí hjá börnunum hans. Við tökum nokkra daga í kringum helgi til þess að skreppa og heimsækja þau. Þetta er um 12 klukkustunda flug frá London en þess virði. Ég hef þó alltaf reynt eins og mögulegt er að sjá fótboltaleiki sonar míns og morgunsöng dóttur minnar í skólanum. En auðvitað kemst maður ekki alltaf, og þá vekur það ekki mikla lukku hjá krökkunum, eðlilega.“ 

Einar eru börnin þín í skólafríi?

Einar: „Nei þau eru uppkomin en það skal fúslega játað að barnauppeldið, samskipti við skólann og aðstoð við nám og þess háttar hvíldi á henni Sigrúnu minni. Þegar rákust á fjölskylduhagsmunir og vinnan þá vék það fyrrnefnda hjá mér, því miður. Það er best að gangast við því núna þegar ég er að hætta.“

En Einar, hvað á þingmaður ekki að gera?



Einar: „Ég vil svara þessari spurningu svona: Ég hugsaði mig mjög mikið um áður en tók ákvörðun um að hætta. Um það hvort ég væri eins brennandi í andanum og ég þyrfti að vera og hvort ég yrði það á komandi kjörtímabili. Ég var ekki viss. Ég óttaðist að pólitíski neistinn gæti slokknað. Enginn má líta á ákvörðun sína um að sækjast eftir þingmannshlutverkinu sem spurningu um framfærslu. Ef einhver óvissa er í huga manns um að maður muni sinna starfinu af hugsjón og ástríðu þá á að láta staðar numið og láta öðrum eftir keflið.“

Jóhanna: „Hvaða ráð myndir þú gefa mér svona í upphafi?“

Einar: „Ég hef hugsað mikið um eðli þingmannsstarfsins og alveg sérstaklega upp á síðkastið. Og mín niðurstaða er svona: Það er eftirsóknarverðasta hlutskipti sem nokkur maður getur fengið í lýðræðisríki að þiggja völd frá almenningi í krafti lýðræðislegra kosninga. Það er stöðugt verið að tala niður þetta starf og gera lítið úr hlutverki þingsins og þingmanna. Ef þú verður kosinn á þing þá myndi ég vilja gefa þér það ráð að líta á það sem forréttindi sem þú nýtur vegna þess að almenningur hefur veitt þér hluta af sínu valdi með atkvæði sínu. Horfa á starfið með þeim augum. Þetta finnst mér vera kjarni þingmannsstarfsins og þess vegna finnst mér það vera svo göfugt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×